Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Örtröð á alþjóðaflugvöllum í Bandaríkjunum

15.03.2020 - 07:46
In this photo provided by Austin Boschen, people wait in line to go through the customs at Dallas Fort Worth International Airport in Grapevine, Texas, Saturday, March 14, 2020. International travelers reported long lines at the customs at the airport Saturday as staff took extra precautions to guard against the new coronavirus, The Dallas Morning News reports. Boschen said it took him at least 4 hours to go through the customs. (Austin Boschen via AP)
 Mynd: AP
Langar raðir mynduðust á nokkrum af stærstu flugvöllum Bandaríkjanna í gærkvöld, eftir að eftirlit var hert við landamærin og allir mældir og skoðaðir við lendingu. Allt að sjö klukkustundir liðu frá því að fólk gekk frá borði og gat sótt föggur sínar á færiböndum flugstöðva.

New York Times greinir frá því að langar raðir hafi verið á alþjóðaflugvellinum í Dallas, tollverðir í fullum sóttvarnarklæðum hafi farið um borð í flugvél frá París sem lenti í New York og farþegar sem lentu í Chicago hafi þurft að standa í röð tímunum saman.

J.B. Pritzker, ríkisstjóri Illinois, vandaði Bandaríkjastjórn ekki kveðjurnar. Hann sendi þeim Donald Trump Bandaríkjaforseta og varaforsetanum Mike Pence línu á Twitter og bað þá um að bregðast við á stundinni. 

Helsta ástæðan fyrir örtröðinni voru viðbrögð Bandaríkjamanna við ávarpi Trumps á fimmtudagskvöld. Þá lýsti hann yfir algjöru ferðabanni vegna COVID-19 frá Evrópu til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti að austurstrandartíma í Bandaríkjunum á föstudag. Fjöldi bandarískra námsmanna og ferðamanna brást skjótt við og keypti farmiða heim, áður en heimavarnarráðuneytið áréttaði að bannið ætti ekki við um bandaríska ríkisborgara. 

Nýjar skimunarreglur tóku gildi í gærkvöld á þrettán alþjóðaflugvöllum í Bandaríkjunum vegna komufarþega frá Evrópu. Þar eru farþegar yfirheyrðir af tollverði, sem fer einnig yfir ferðasögu þeirra í gagnagrunni heimavarnarráðuneytisins. Vörðurinn spyr farþega um helsufar, og ef þeir sýna engin einkenni COVID-19 eru þeir beðnir um að halda sig heima fyrir í sóttkví í tvær vikur. Svo fer það eftir einkennum og fyrri heilsufarssögu hvort farþegar þurfa að hitta heilbrigðisstarfsmanna á flugvellinum. Einhverjir gætu þurft að fara í sóttkví á vegum hins opinbera. 

Chad Wolf, starfandi heimavarnarráðherra, kvaðst vita af vandanum og sagði ráðuneytið vinna að því að bæta við starfsmönnum.