Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Orrustan um Raqqa hafin

06.11.2016 - 11:55
Mynd með færslu
Hermaður úr varnarsveitum Kúrda YPG. Mynd: EPA
Hafin er stórsókn sem miðar að því að frelsa borgina Raqqa í Sýrlandi og nágrenni hennar úr klóm Íslamska ríksins. Talsmenn Sýrlensku lýðræðissveitanna SDF, bandalags hinna ýmsu fylkinga uppreisnarmanna í Sýrlandi, tilkynntu þetta á fundi með fréttamönnum í morgun.

Fundurinn var haldinn í Ain Issa um 50 kílómetra frá Raqqa, sem hefur verið höfuðvígi Íslamska ríkisins. Þar kom fram að 30.000 hermenn tækju þátt í árásinni, sem hafist hefði í gærkvöld.

Vopnaðar sveitir Araba, Kúrda og Túrkmena myndu undir merkjum SDF frelsa frelsa Raqqa með stuðningi frá Varnarsveitum Kúrda YPG og Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra.

Áætlunin um frelsun borgarinnar væri í tveimur liðum. Fyrst yrði lögð áhersla á að ná þorpum og bæjum í kringum Raqqa og einangra þannig borgina og síðan yrði ráðist inn í hana sjálfa.

Fram kom að SDF hefði fengið ný og öflug vopn frá Bandaríkjamönnum og bandamönnum, þar á meðal flugskeyti til að granda skriðdrekum. Þá hefðu Bandaríkjamenn gert samkomulag við Tyrki um að þeir tækju engan þátt í bardögum um Raqqa. Í forystu SDF eru Varnarsveitir Kúrda, YPG, sem Tyrkir líta á sem hryðjuverkasamtök.

Talsmenn sögðu að þetta yrði erfitt verkefni því forystumenn Íslamska ríkisins gerðu sér grein fyrir því að fall Raqqa þýddi endalok samtakanna í Sýrlandi.

Nýlega hófust í Írak umfangsmiklar hernaðaraðgerðir gegn Íslamska ríkinu í borginni Mosul, höfuðvígi samtakanna þar í landi.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV