Orrahríð á fyrsta degi réttarhaldanna yfir Weinstein

06.01.2020 - 18:18
epa08108368 Former Hollywood producer Harvey Weinstein (C) departs after the first day of his criminal trial at New York State Supreme Court in New York, New York, USA, 06 January 2020. The trial, which is expected to last for about eight weeks, is based on sexual assault and rape allegations of two women.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Verjendur bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein og saksóknarar í málinu gegn honum létu þung orð falla á fyrsta degi réttarhaldanna sem hófust á Manhattan í dag. Saksóknari lýsti hegðun verjenda Weinsteins sem andstyggilegri. Hún hefði verið auðmýkjandi og niðurlægjandi fyrir þær konur sem sakað hafa Weinstein um kynferðisbrot.

Breska blaðið Guardian segir þessar skeytasendingar á fyrsta degi til vitnis  um hversu mikilvæg réttarhöldin yfir Harvey Weinstein eru fyrir baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum. 

Mál Weinstein varð kveikjan að #metoo-byltingunni en hann hefur hingað til ekki þurft að svara til saka fyrir dómi  Samkomulag sem lögmenn hans gerðu við þrjátíu konur uppá 25 milljónir dollara hefur vakið reiði enda felur það í sér að kvikmyndaframleiðandinn þarf ekki að borga krónu sjálfur. Nú sé hins vegar komið að skuldadögum hjá Weinstein.

Þegar kvikmyndaframleiðandinn kom til réttarhaldanna í dag beið hans stór hópur mótmælenda og meðal þeirra voru leikkonurnar Rose McGowan og Rosanna Arquette. „Þú hélst að þú gætir ógnað okkur þannig að við myndum þegja.  Þú hafðir rangt fyrir þér. Að við séum komin á þennan stað réttlætis er ótrúlegt. Þessi réttarhöld skipta marga svo miklu máli,“ sagði McGowan í opnu bréf til Weinsteins sem hún las upp fyrir viðstadda.

epaselect epa08108212 Actresses Paula Williams (L), Rose McGowan (C) and Lauren Sivan (R) stand together during a press conference with women who have all accused former Hollywood producer Harvey Weinstein of sexual assault outside New York State Supreme Court on the first day of Weinstein’s criminal trial in New York, New York, USA, 06 January 2020. The trial, which is expected to last for about eight weeks, is based on sexual assault and rape allegations of two other women.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Inni í dómsalnum sat Weinstein og ekki leið á löngu þar til verjendur hans og saksóknari voru komnir í hár saman. Í umfjöllun Guardian kemur fram að það hafi verið viðtal sem verjandi Weinsteins veitti sem fór helst fyrir brjóstið á saksóknaranum. „Það er andstyggilegt að tala um sönnunargögn, málsgögn sem eiga að vera lokuð og vitni á niðurlægjandi hátt,“ sagði saksóknarinn Joan Illuzzi-Orbon. 

Dómarinn beindi þeirri spurningu til Donnu Rotunno, verjanda Weinsteins,  hvort hún hefði hegðað sér á þann hátt sem saksóknari hefði lýst. „Alls ekki, ég hef verið mjög fagmannleg, sýnt virðingu og unnið starf mitt af heilindum.“  Í framhaldinu bannaði dómarinn báðum aðilum að tala um vitni utan dómstólsins.

Verjendur Weinsteins kvörtuðu yfir því við dómarann að hafa ekki fengið aðgang að öllum málsgögnum. „Saksóknara halda því fram að þetta sé viðkvæmt mál fyrir vitnin og við höfum skilning á því. En þetta er líka viðkvæmt mál fyrir Weinstein og svona leynd gerir honum ókleift að verja sig.“

Að þessu loknu var réttarhaldinu frestað þangað til á morgun þegar val á kviðdómi hefst. Búist er við að það geti tekið hálfan mánuð. Í umfjöllun Washington Post kemur fram að í málum eins og þessum geti slíkt val ráðið úrslitum.

Væntanlegir kviðdómendur eru spurðir út í hjónabandsstöðu sína, starf sitt og hvað þeir hafi vitað um Harvey Weinstein, ásakanirnar á hendur honum og hvort þeir treysti sér til að vera hlutlægir.  Þeir verða jafnframt spurðir út í afstöðu sína til #metoo-hreyfingarinnar og saksóknaraembættið ætlar að leggja fram gögn af samfélagsmiðlum til að koma í veg fyrir að einhverjir geti logið sig inn í kviðdóm.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi