Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Orkumálaráðherra Breta til landsins

29.05.2012 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, er væntanlegur til landsins á morgun, miðvikudag og mun, ásamt Oddnýju G. Harðardóttur, iðnaðarráðherra, undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu landanna varðandi orkumál í Hellisheiðarvirkjun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá breska sendiráðinu.   Í viljayfirlýsingunni kemur fram vilji þjóðanna til að styrkja vináttutengsl sín og er lögð áhersla á mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og samvinnu í þróun jarðhitanýtingar í Bretlandi við uppbyggingu hitaveitu. Einnig er sameiginlegur áhugi á jarðvarma í þróunarlöndum með áherslu  á verkefni í Austur Afriku, að því er segir í tilkynningunni frá sendiráðinu.

Hendry lýsti fyrir nokkrum vikum opinberlega yfir áhuga breskra stjórnvalda á að koma að fyrirætlunum um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlandseyja eða Evrópu. Hann hefur meðal annars rætt það mál við forstjóra Landsvirkjunar. Búast má við að þetta mál verði meðal þess sem Henry ræðir við Oddnýju Harðardóttur, iðnaðarráðherra.
.