Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Orkulöggjöfin sem vakti hörð viðbrögð

27.08.2019 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Einhverri hörðustu deilu síðustu ára í íslenskum stjórnvöldum líkur að óbreyttu á mánudag, allavega hvað varðar niðurstöðu málsins á Alþingi. Stefnt er að því að þingmenn greiði þá atkvæði um þriðja orkupakkann. Tveir dagar eru áætlaðir í umræðu um málið á miðvikudag og fimmtudag. Málið fór hægt af stað en vakti síðar sterkar tilfinningar hjá mörgum.

RÚV hefur lengi fjallað um þriðja orkupakkann. Hér á eftir er stiklað á stóru í nokkrum fréttum sem endurspegla umræðuna frá einum tíma til annars án þess þó að vera nokkurn veginn tæmandi. Flestum fréttum RÚV hefur verið safnað saman í brennidepli þar sem má nálgast þær.

 
Í brennidepli

Þriðji orkupakkinn

Allar fréttir og umfjallanir um þriðja orkupakkann á vef RÚV.

 

Fólk sem hlustaði á Spegilinn föstudaginn 23. mars í fyrra heyrði fjallað um deilumál í Noregi sem væri farið að teygja sig til Íslands. Þar var talað um tilskipun Evrópusambandsins í orkumálum „sem gengur undir nafninu þriðji orkupakkinn“. Þriðji orkupakkinn hafði þá verið til meðferðar í stjórnkerfinu og hafði komið til nokkurrar umræðu en þó sáralítillar miðað við það sem síðar var. Heitið var ekki orðið kunnuglegra en svo að útskýra þyrfti um hvað væri rætt. Enn hafði lítið farið fyrir máli sem átti eftir að verða mikilsráðandi í umræðunni á næstu misserum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins höfðu þó þá þegar sett sig upp á móti þriðja orkupakkanum.

 

Ein helsta gagnrýnin á þriðja orkupakkann af hálfu andstæðinga hans er sú að stjórnvöld missi forræði yfir orkumálum og leiði meðal annars til þess að Íslendingar geti ekki staðið gegn lagningu sæstrengs. Þetta birtist til dæmis í orðum Peter Ørebech, lagaprófessors við háskólann í Tromsø í Noregi, fram síðasta haust. Þessu andmælti Birgir Tjörvi Pétursson, sem vann greinargerð fyrir iðnaðarráðuneytið um þriðja orkupakkann. Hann benti á að ef fjórfrelsið hefði eitthvað um lagningu sæstrengs að segja, eins og Ørebech hélt fram, breytti þriðji orkupakkinn engu þar um. Síðan þá hefur verið tekist á um hvort eða hvaða áhrif þriðji orkupakkinn hafi á mögulega lagningu sæstrengs.

 

Guðni Jóhannesson orkumálastjóri sagði að sumt af því sem varað væri við í umræðunni um þriðja orkupakkann ætti nú þegar við. Þannig væri orkumarkaðurinn hérlendis frjáls og fyrirtækin gætu verðlagt orkuna eins og þeim þyki henta. Hann sagðist þá telja að orkufyrirtækin myndu hækka verð til einstaklinga og fyrirtækja ef markaðsaðstæður leyfa. Sjálfur sagðist hann ekki hafa hugmyndaflug til að sjá suma þá hættu sem aðrir vöruðu við. Aðrir viðmælendur Kastljóss í sama þætti lýstu ýmsum sjónarmiðum.

 

Talsverðrar andstöðu hefur gætt við innleiðingu þriðja orkupakkans, ekki aðeins í opinberri umræðu heldur einnig í skoðanakönnunum. Sem dæmi má nefna skoðanakönnun sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið í byrjun maí. Nærri helmingur þeirra sem tóku afstöðu sagðist andvígur innleiðingu, tæplega þriðjungur var henni fylgjandi og rúmlega fimmtungur kvaðst hlutlaus. Þó kom fram í könnuninni að þegar öll svör voru skoðuð var stærsti hópurinn sá sem hafði ekki gert upp hug sinn, sagðist hvorki hlynntur, andvígur né hlutlaus.

 

Síðdegis þann fimmta júní síðastliðinn varð umræðan um þriðja orkupakkann sú lengsta í sögu Alþingis. Þá höfðu þingmenn rætt málið í 135 klukkustundir og tíu mínútur. Þar með hafði meiri tíma verið varið í umræðu um þriðja orkupakkann en Icesave sem klauf samfélagið 2010. Umræðunni var þó ekki lokið. Þingmenn Miðflokksins fóru mikinn í ræðustól Alþingis og töluðu samanlagt í vel yfir hundrað klukkustundir. Dag eftir dag stóðu þingfundir fram á morgun næsta dags, sá lengsti stóð í rúman sólarhring, frá hálf ellefu 28. maí til að verða ellefu næsta dag.

 

Utanríkismálanefnd Alþingis hélt tvo opna nefndarfundi um þriðja orkupakkann í ágúst, til undirbúnings þingfundum í vikunni. Þar var ekki síst tekist á um hvort að þriðji orkupakkinn gerði að verkum að íslensk stjórnvöld gætu ekki staðið í vegi fyrir lagningu sæstrengs. Frosti Sigurjónsson, einn forsvarsmanna Orkunnar okkar og Arnar Þór Jónsson héraðsdómari sögðu að íslenska ríkið gæti orðið skaðabótaskylt legðist það gegn lagningu sæstrengs. Því andmælti Skúli Magnússon héraðsdómari. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sagði þetta á sandi byggt. Meðal annars kæmu hafréttarsamningar í veg fyrir slíka skaðabótaskyldu. Margrét Einarsdóttir, dósent við lögfræði, sagði ákaflega fjarstæðukennt að lesa lagalegar skuldbindingar um sæstreng úr almennum aðfararorðum þriðja orkupakkans.