Orka, einbeiting og næmi

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Orka, einbeiting og næmi

19.09.2018 - 09:00

Höfundar

María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Víðsjár, segir frá sinni upplifun af verkinu Allt sem er frábært, eftir Duncan Mcmillan, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu um liðna helgi.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Breski leikritahöfundurinn Duncan Macmillan er orðinn nokkurs konar hirðskáld Borgarleikhússins. Síðasti vetur byrjaði með leikgerð hans á „1984“ eftir George Orwell, um vorið kom „Fólk, staðir, hlutir“ sem enn er á fjölunum þegar frumsýnt er nú á sama sviði svokallaður einleikur hans „ Allt er frábært“ í þýðingu og staðfærslu Kristínar Eiríksdóttur og í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Menn geta valið sér verri leikskáld.

Macmillan er annt um samborgara sína og leitandi og frumlegur í byggingu verka. Hér sækir hann ýmislegt til áttunda áratugar síðustu aldar. Eignarétturinn virðist honum heldur ekki heilagur því hann lyftir óhikað fram samverkamönnum sínum. Og í þessu verki er það gamanleikarinn Jonny Donahoe sem hann segir vera lykilmanninn á bak við formið á þessari frásögn sem hann hefur verið átta ár að koma frá sér. Og það er reyndar formið sem gerir meginþema innihaldsins klisjuna að lífið sé þess virði að lifa því, að einhvers konar sannleik.

Við sem mætt erum þetta kvöld á þennan stað, litla sviðið, höfum áður í leikhúsi verið dregin inní leik sem áhorfendur, verið spurð, tæld upp á svið eða tekið undir með leikurum í söng. En hér verðum við eða stór hluti okkar að meðleikurum. Kannski ekki beinlínis að grískum kór en eini leikarinn að þessu sinni sögumaðurinn, Valur Freyr Einarsson, getur ekki sagt frá lífshlaupi sínu, glímunni við lífið, án okkar.

Okkur er skipað þannig til sætis að við umkringjum hann á alla vegu og þegar hann rekur í vörðurnar, fær hann hjálp og þegar hann þarf að myndgera ákveðnar persónur svo sem dýralækni, faðir, skólaráðgjafa, ástina sína, þá rísa upp meðal áhorfenda þeir sem Valur Freyr hefur valið af handahófi og afhent leiðbeiningar þegar gengið er inní salinn. Og það kemur einhver falleg aukavídd í frásögnina þegar þeir oftast dálitið hikandi reyna að leika persónuna studdir ekki aðeins af mótleikaranum Vali Frey heldur bylgju af glaðværri samkennd sem breiðist út meðal allra viðstaddra.

Valur Freyr primus mótorinn er í salnum þegar við göngum inn. Hann tekur ýmsa, réttara sagt, marga tali , myndar tengsl, afhendir þeim stundum miða. Sumir verða eins og áður segir persónur í frásögninni. Hinir fá númeraða miða með áletraðri setningu . Svo byrjar þetta allt saman með því að leikarinn staðsetur sig í í miðju upplýstu rýminu, þar sem er bara einn kollur, til að segja okkur frá lífi „sínu“ (innan gæsalappa) allt frá því að hann sjö ára gamall drengurinn ‒ í fjölskyldu þar sem mamman hefur gert tilraun til sjálfsvígs og pabbinn er lokaður og tilfinningafatlaður - leitar huggunar gegn erfiðleikum lífsins með því að gera lista yfir allt sem gleður hann. Drengurinn vex úr grasi, gengur í skóla, upplifir missi, aðra sjálfsvígstilraun móðurinnar, ástina og sambandsslit, dauða. Listinn verður haldreipi sem hann grípur til í sviptingum lífsins. Listinn vex og vex , verður að þúsund miðum og sumir þeirra eru í höndum áhorfenda sem lesa upp allt það sem er frábært í þessu lífi: Ís með dýfu, að vera allan daginn í sundi, fólk að detta.

Smávægilegt , lítilfjörlegt kann þetta að sýnast einkum andspænis því mikla drama sem raunverulega er verið að fjalla um : einmanaleika, kvíða, þunglyndi, sorg og sjálfsvíg sem samfélag okkar er þrúgað af. En kúnst Macmillans og Donahue liggur í því að afbyggja dramað, nota hlátur og gleði til að tala um sársauka, benda á leiðir, skapa samhygð. Af ótrúlegri orku, einbeitingu og næmi virkjar Valur Freyr okkur mótleikara sína, spinnur vefinn til loka. Ef til vill hefði mátt oftar skína í undirliggjandi melankólíu en ég er vanhæf til að meta það sem einn af þáttakendum í viðburðinum. Ég get þó fullyrt eitt að ofarlega á listann minn yfir það sem gerir lífið þess að virði að lifa því er að hafa tekið þátt í sýningunni „ Allt sem er frábært“ í Borgarleikhúsinu.