Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Orðin mun háðari raforku en áður

13.12.2019 - 14:21
Mynd: Rúv / Rúv
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,  ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunarráðherra, segir að það skipti máli að fara á vettvang og sjá aðstæður með berum augum. Ráðherrar muni hafa gagn að því. Þá skipti máli að sýna fólki hluttekningu eftir allt sem á undan er gengið. Fimm ráðherrar flugu norður í hádeginu. Til stendur að skoða aðstæður þeirra sem verst urðu úti í óveðrinu, á Dalvík, í Skagafirði og fleiri byggðarlögum.

„Þetta er atvik sem við verðum að læra af, bæði er varðar undirbúning, hvar mannskapur er, og svo er annað atriði að horfa á: Hvað þola innviðir okkar, hvað er áfallaþol samfélagsins þegar kemur að þessum málum. Við erum auðvitað í dag orðin svo miklu háðari raforku en við vorum áður þannig að það að svæði verði rafmagnslaust er bara ekki það sama og áður.“

Horfa þurfi á kerfið með gagnrýnum augum

„Þetta eru harðorðar ályktanir. Fólk setur ekkert svona fram að gamni sínu þannig að ég að sjálfsögðu tek það til mín eins og ég held að aðrir geri sem hlut eiga að máli,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir,  ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunarráðherra, aðspurð um gagnrýni sveitarstjórnenda á umræddum svæðum um að innviðir hafi ekki verið nægilega sterkir.

Mikilvægt sé að skoða hvað fór úrskeiðis eða bilaði í hverju tilviki, hvort það var vegna þess að innviðir voru ekki nægilega sterkir eða til dæmis vegna þess að ísing var svo mikil. Hún segir að það þurfi að horfa á kerfið hér á landi með gagnrýnum augum og skoða hvernig hægt sé að einfalda það og tryggja hraðari málsmeðferð í nauðsynlegum framkvæmdum.

Átakshópur settur á fót vegna óveðursins

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að skipa starfshóp fimm ráðuneyta sem á að meta hvaða aðgerðir eru færar til að efla flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskipti til að tryggja að slíkir grunninnviðir geti sem best tekist á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir.

Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum skoðar hópurinn samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV. Er það mat ríkisstjórnarinnar að öryggi í þessum samfélagslegu innviðum lúti að þjóðaröryggi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Skjáskot af Instagramreikningi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur

Ráðherrar á leið norður. Til stendur að skoða aðstæður þar sem verst urðu úti í óveðrinu, Dalvík, Skagafjörð og fleiri byggðarlög. Forsætisráðherra hyggst keyra til baka og sækja Húnaþing vestra heim.