Óraunhæft að mynda tveggja flokka stjórn

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lítur ekki á það sem raunhæfan kost að mynda tveggja flokka stjórn með Framsóknarflokknum að loknum kosningum í lok mánaðarins. Þetta sagði hann í Forystusætinu þar sem hann sat fyrir svörum í kvöld. Hann sagði að fyrsti kostur væri alltaf að mynda tveggja flokka stjórn, en aðstæður væru mjög óvenjulegar núna og það líti ekki út fyrir að vera auðvelt núna. 

Bjarni svaraði fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins um ýmis málefni, heilbrigðiskerfið, auðlindamál, ferðaþjónustu, sölu bankanna og Panama-skjölin, sem eru einmitt ástæða þess að gengið er til kosninga nú. Nafn Bjarna kom fyrir í skjölunum en hann segir að hann hafi farið eftir skráningu um eignarhluta og hann hafi staðið í þeirri meiningu að félagið hafi verið stofnað í Lúxemborg af Landsbankanum í Lúxemborg. Þá segir hann að þegar hann hafi tekið ákvörðun um að hella sér í stjórnmál hafi hann ákveðið að slíta eignatengsl við öll félög og seldi allt sem hann átti.

„Ég á engin skuldabréf, engin hlutabréf, engin verðbréf af nokkru tagi og það er ákvörðun sem ég tók áður en ég gerðist formaður í Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst þetta langbest svona fyrir mig, ég geri ekki kröfu um að aðrir geri það sama. Svona finnst mér best að ég safni mínum kröftum til þess að hella mér í stjórnmálin.“

Undir lokin var Bjarni spurður út í mögulegt stjórnarsamstarf að loknum kosningum. „Ég verð að segja alveg eins og er að þetta eru mjög óvenjulegar aðstæður núna,“ svaraði Bjarni og bætti því við að fyrir honum væri alltaf fyrsti kostur að mynda tveggja flokka stjórn. Mörg erfið mál komi upp á hverju kjörtímabili og eftir því sem flokkarnir í stjórn verði fleiri verði sérsjónarmiðin magnaðri. Það geti leitt til stjórnarfalls.

Eins og staðan líti út ætlar Bjarni að einbeita sér að því að bæta stöðu Sjálfstæðisflokksins. „Svo ætla ég bara að virða lýðræðislega niðurstöðu. Við verðum bara að gera eins gott með þá niðurstöðu og hægt er.“

Aðspurður um áframhaldandi samstarf með Framsóknarflokknum svaraði Bjarni því að hann geti vel séð það fyrir sér. „En við verðum bara að vera raunhæf. Það virðist ekki vera möguleiki að þessir tveir flokkar saman myndi einir ríkisstjórn og þá verður maður að vera opinn fyrir öllum öðrum kostum, maður verður bara að beita einhverju raunsæi,“ sagði Bjarni. Miðað við kannanir lítur ekki út fyrir að stjórnarmeirihlutinn haldi að loknum kosningum síðar í mánuðinum.

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi