Bjarki Þór Jónsson skrifar:
Á tæpum fimm áratugum hafa tölvuleikir þróast úr allra einföldustu mynd yfir í risavaxna ævintýraheima þar sem möguleikarnir virðast endalausir. Tölvuleikir eru ekki aðeins orðnir tæknilega fullkomnari en áður heldur bjóða þeir einnig upp á dýpri upplifanir og fjölbreyttari spilun. Þegar ég byrjaði fyrst að spila tölvuleiki seint á níunda áratug síðustu aldar óraði mig ekki fyrir þeirri hröðu þróun sem átti eftir að eiga sér stað. Í hvert skipti sem ný kynslóð leikjatölva var kynnt til sögunnar hugsaði maður með sér að nú hlyti toppnum að vera náð, grafíkin gæti nú varla orðið betri en þetta, nú hlyti tölvutæknin að vera komin nálægt endastöð. Annað kom þó í ljós. Tölvutæknin heldur áfram að þróast og ár hvert færist tölvuleikjagrafíkin nær raunveruleikanum.
Upphafið
En hvernig komust tölvuleikir á þann verðskuldaða stall sem þeir eru á í dag? Það má segja að árið 1972 marki formlegt upphafsár tölvuleikja. Það ár gaf tölvuleikjafyrirtækið Atari út hinn íkoníska PONG spilakassa. PONG var fyrsti tölvuleikurinn sem náði almennum vinsældum og þar með kynntist almenningur þessu nýja formi afþreyingar. Vissulega má finna dæmi um eldri tölvuleiki en PONG en árið 1972 virtist allt smella saman og þá fyrst náðu tölvuleikir almennilegu flugi. PONG er afskaplega auðveldur í spilun og fylgir einföldum leikreglum. Beggja megin á skjánum birtast tennisspaðar sem leikmenn stýra og á milli tennisspaðanna skoppar tennisbolti fram og til baka. Markmiðið er að hæfa boltann með tennisspaðanum en ef svo óheppilega vill til að þú hittir ekki boltann fær andstæðingurinn stig. Sá spilari sem hefur flest stig við leikslok stendur uppi sem sigurvegari. Leikreglurnar gátu varla verið einfaldari líkt og kom fram í leiðbeiningum á spilakassanum: „Reyndu að hitta boltann til að setja stigamet.“ Með PONG sá fólk í viðskiptaheiminum tækifæri í tölvuleikjum sem söluvöru. Í kjölfarið fóru fleiri fyrirtæki að búa til tölvuleiki og leikjatitlum og tölvuleikjaspilurum fjölgaði.
Margar leikjatölvur frá hinum ýmsu framleiðendum birtust í hillum verslana á áttunda og níunda áratugnum. Ein af þeim sem áttu eftir að hafa gríðarleg áhrif á vinsældir tölvuleikja var leikjatölvan NES, eða Nintendo Entertainment System, sem japanska fyrirtækið Nintendo framleiddi fyrir vestrænan markað árið 1985. Með henni kynnti fyrirtækið til sögunnar nýja og eftirminnilega tölvuleikjakaraktera á borð við píparann Mario, hetjuna Link og górilluna Donkey Kong. Leikirnir frá Nintendo þóttu sérlega vel hannaðir og vandaðir. Vinsælir karakterar fengu sína eigin leikjaseríu hjá Nintendo sem margar hverjar lifa góðu lífi enn þann dag í dag. Tölvuþróun var hröð á níunda áratugnum og tölvuleikir urðu sífellt flottari og fullkomnari. Leikirnir áttu það þó langflestir sameiginlegt að vera í tvívídd en það átti eftir að breytast á tíunda áratugnum.
Þríviddin ber að dyrum
Með öflugri vélbúnaði á tíunda áratugnum og tilkomu geisladiska sem buðu upp á margfalt meira geymslupláss en eldri leikjahylki varð auðveldara að búa til tölvuleiki í þrívídd. PlayStation, fyrsta leikjatölvan frá Sony, kom á markað 1994 og var ein sú fyrsta sem var með innbyggðu geisladrifi. Upphaflega var PlayStation samstarfsverkefni Sony og Nintendo. Nintendo bakkaði úr því samstarfi en Sony ákvað að halda áfram þróun tölvunnar og framleiddi hana á endanum þrátt fyrir samstarfsslitin. Með þrívíddinni stækkuðu leikjaheimar, tölvuleikjakarakterar urðu raunverulegri og frelsi leikjahönnuða og spilara jókst til muna.