Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ör þróun á sviði tölvuleikja í hálfa öld

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons

Ör þróun á sviði tölvuleikja í hálfa öld

09.03.2020 - 12:32

Höfundar

Frá Pong til 1.000 km² leikjaheima. Bjarki Þór Jónsson stiklar á stóru í sögu tölvuleikja.

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Á tæpum fimm áratugum hafa tölvuleikir þróast úr allra einföldustu mynd yfir í risavaxna ævintýraheima þar sem möguleikarnir virðast endalausir. Tölvuleikir eru ekki aðeins orðnir tæknilega fullkomnari en áður heldur bjóða þeir einnig upp á dýpri upplifanir og fjölbreyttari spilun. Þegar ég byrjaði fyrst að spila tölvuleiki seint á níunda áratug síðustu aldar óraði mig ekki fyrir þeirri hröðu þróun sem átti eftir að eiga sér stað. Í hvert skipti sem ný kynslóð leikjatölva var kynnt til sögunnar hugsaði maður með sér að nú hlyti toppnum að vera náð, grafíkin gæti nú varla orðið betri en þetta, nú hlyti tölvutæknin að vera komin nálægt endastöð. Annað kom þó í ljós. Tölvutæknin heldur áfram að þróast og ár hvert færist tölvuleikjagrafíkin nær raunveruleikanum.

Upphafið

En hvernig komust tölvuleikir á þann verðskuldaða stall sem þeir eru á í dag? Það má segja að árið 1972 marki formlegt upphafsár tölvuleikja. Það ár gaf tölvuleikjafyrirtækið Atari út hinn íkoníska PONG spilakassa. PONG var fyrsti tölvuleikurinn sem náði almennum vinsældum og þar með kynntist almenningur þessu nýja formi afþreyingar. Vissulega má finna dæmi um eldri tölvuleiki en PONG en árið 1972 virtist allt smella saman og þá fyrst náðu tölvuleikir almennilegu flugi. PONG er afskaplega auðveldur í spilun og fylgir einföldum leikreglum. Beggja megin á skjánum birtast tennisspaðar sem leikmenn stýra og á milli tennisspaðanna skoppar tennisbolti fram og til baka. Markmiðið er að hæfa boltann með tennisspaðanum en ef svo óheppilega vill til að þú hittir ekki boltann fær andstæðingurinn stig. Sá spilari sem hefur flest stig við leikslok stendur uppi sem sigurvegari. Leikreglurnar gátu varla verið einfaldari líkt og kom fram í leiðbeiningum á spilakassanum: „Reyndu að hitta boltann til að setja stigamet.“ Með PONG sá fólk í viðskiptaheiminum tækifæri í tölvuleikjum sem söluvöru. Í kjölfarið fóru fleiri fyrirtæki að búa til tölvuleiki og leikjatitlum og tölvuleikjaspilurum fjölgaði.

Margar leikjatölvur frá hinum ýmsu framleiðendum birtust í hillum verslana á áttunda og níunda áratugnum. Ein af þeim sem áttu eftir að hafa gríðarleg áhrif á vinsældir tölvuleikja var leikjatölvan NES, eða Nintendo Entertainment System, sem japanska fyrirtækið Nintendo framleiddi fyrir vestrænan markað árið 1985. Með henni kynnti fyrirtækið til sögunnar nýja og eftirminnilega tölvuleikjakaraktera á borð við píparann Mario, hetjuna Link og górilluna Donkey Kong. Leikirnir frá Nintendo þóttu sérlega vel hannaðir og vandaðir. Vinsælir karakterar fengu sína eigin leikjaseríu hjá Nintendo sem margar hverjar lifa góðu lífi enn þann dag í dag. Tölvuþróun var hröð á níunda áratugnum og tölvuleikir urðu sífellt flottari og fullkomnari. Leikirnir áttu það þó langflestir sameiginlegt að vera í tvívídd en það átti eftir að breytast á tíunda áratugnum.

Þríviddin ber að dyrum

Með öflugri vélbúnaði á tíunda áratugnum og tilkomu geisladiska sem buðu upp á margfalt meira geymslupláss en eldri leikjahylki varð auðveldara að búa til tölvuleiki í þrívídd. PlayStation, fyrsta leikjatölvan frá Sony, kom á markað 1994 og var ein sú fyrsta sem var með innbyggðu geisladrifi. Upphaflega var PlayStation samstarfsverkefni Sony og Nintendo. Nintendo bakkaði úr því samstarfi en Sony ákvað að halda áfram þróun tölvunnar og framleiddi hana á endanum þrátt fyrir samstarfsslitin. Með þrívíddinni stækkuðu leikjaheimar, tölvuleikjakarakterar urðu raunverulegri og frelsi leikjahönnuða og spilara jókst til muna.

Playstation leikjatölvan frá Sony.
 Mynd: CC
Playstation leikjatölvan frá Sony.

Þrívíddarleikir voru orðnir tíðir um aldamótin þegar hugbúnaðarrisinn Microsoft kynnti til sögunnar sína fyrstu leikjatölvu, Xbox. Með Xbox fór Microsoft í samkeppni við Sony og Nintendo og hafa þessi þrjú fyrirtæki verið mjög fyrirferðarmikil á leikjatölvumarkaðnum undanfarin ár og áratugi. Um aldamótin varð einnig mikil þróun í netspilun. EverQuest, World of Warcraft, EVE Online og fjöldi annara fjölspilunarleikja buðu spilurum upp á að tengjast netinu og spila tölvuleikinn með öðrum spilurum í rauntíma. Leikjatölvur voru ekki lengur eingöngu fyrir tölvuleiki heldur voru nú orðnar að eins konar margmiðlunartækjum sem gátu spilað tónlist af geisladiskum, myndefni af DVD-diskum og jafnvel var hægt að vafra um á netinu.

Reiðir fuglar í lófa þér

Snjallsímar og snjalltæki hafa einnig átt sinn þátt í þróun tölvuleikja og tölvuleikjaspilunar. Rétt yfir áratugur er liðinn frá útgáfu Angry Birds, sem var einn af fyrstu leikjunum sem sýndu fram á möguleika snjallsíma og snertiskjáa til tölvuleikjaspilunar. Fyrsti Angry Birds-leikurinn náði gríðarlegum vinsældum og eru karakterarnir úr honum stórstjörnur enn í dag. Fjölmargir Angry Birds-leikir hafa bæst við síðan sá fyrsti sló í gegn og auk þess hafa litríku fuglarnir og grænu svínin í leikjunum fengið sína eigin teiknimyndaþætti, kvikmyndir, leikföng, sælgæti, klæðnað og jafnvel sína eigin rólóvelli í Finnlandi  og skemmtigarð í Katar. Aðgengi almennings að tölvuleikjum jókst mikið með tilkomu snjallsíma. Fólk sem hafði mögulega lítið verið að hugsa um tölvuleiki var skyndilega farið að spila þá í símanum. Fruit Ninja, Temple Run, Candy Crush og Clash of Clans voru meðal þessara vinsælu símaleikja og eru margir þeirra enn mikið spilaðir.

Framtíðin er óskrifað blað

Þá erum við komin til dagsins í dag. Ársins 2020. Stóru vinsælu leikirnir í dag, svokallaðir AAA-leikir (eða AAA games), taka yfirleitt nokkur ár í framleiðslu og koma tugir jafnvel nokkur hundruð manna að gerð slíkra leikja.  Einn þessara fjölmörgu stórleikja er hasar- og ævintýraleikurinn Just Cause 3 frá árinu 2015. Í honum fer spilarinn með hlutverk Ricos Rodriguez sem er aðalsöguhetja leiksins. Leikurinn býður upp á opinn heim, sem þýðir að spilarinn fær frelsi til þess að ákveða sjálfur hvert skal haldið næst og hvað skal gera. Í stað þess að fylgja línulegum söguþræði fær spilarinn frelsi til að taka sínar eigin ákvarðanir og getur til dæmis ákveðið að skoða sig um, tekið að sér aukaverkefni eða haldið áfram með aðalsöguþráð leiksins. Stærð leikjaheimsins í Just Cause 3 er í kringum 1.000 km²,  sem er álíka stórt svæði og samanlagt flatarmál sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.  Just Cause 3 er dæmi um hve umfangsmiklir tölvuleikir nútímans geta verið. Á aðeins fimm áratugum hafa tölvuleikir þróast úr „reyndu að hitta boltann til að setja stigamet“ yfir í risavaxinn heim af alls konar leikjum. Eitt er víst, og það er að tölvutækni og tölvuleikir munu halda áfram að þróast. Toppnum er alls ekki náð og verður áhugavert að sjá hvaða nýjungar næsti áratugur færir okkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Avalanche Studios
Just Cause 3.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Tölvuleikjum illa sinnt af íslenskum fjölmiðlum

Innlent

Foreldrar þurfi að stíga inn í heim barnanna

Tónlist

Getur stafræn ást verið raunveruleg?

Red Dead með mörg verðlaun en ekki bestur