Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

OR fjárfestir fyrir 102 milljarða næstu sex ár

30.09.2019 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Orkuveita Reykjavíkur áformar að leggja 102 milljarða á næstu sex árum í viðhalds- og nýfjárfestingar. Þetta kemur fram í fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrir tímabilið 2020 til 2025, sem var samþykkt af stjórn OR í dag.

Hún fer nú til umfjöllunar sem hluti af fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að fjárhagurinn sé traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum. Innan Orkuveitusamstæðunnar eru auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka verkefnið á tímabilinu en einnig er gert ráð fyrir byggingu nýrrar aðveitustöðvar rafmagns sem geti þjónað farþegaskipum í Sundahöfn.

„Hagtölur sýna að búast megi við að það dragi úr vexti í samfélaginu á næstu misserum. Því getur þetta verið hentugur tími til framkvæmda. Grundvallaratriði er þó að reksturinn sé í góðu horfi því hagsýni í rekstrinum er forsenda þess að við getum staðið undir eðlilegum væntingum um að sú grunnþjónusta sem fyrirtækin í samstæðunni veita sé á sanngjörnu verði,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í tilkynningu.