Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Opnuðu veginn að Landmannalaugum óvenju snemma

25.05.2019 - 11:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vegagerðin opnaði í gær veginn að Landmannalaugum, nærri mánuði fyrr en síðustu fimm ár. Landmannalaugar er vinsæll ferðamannastaður á Fjallabaksleið sem markar upphaf eða lok margra gönguleiða um Friðland að Fjallabaki, meðal annars um Laugaveginnn, eina vinsælustu gönguleið landsins.

Halldór Hafdal Halldórsson hjá Ferðafélagi Íslands fagnar því að vegurinn opni svo snemma. Gott veður valdi því að hægt sé að opna hann fyrr en oft áður en á síðustu fimm árum hefur vegurinn í fyrsta lagi verið opnaður 18. júní. „Hann opnar svona snemma því snjóinn tók upp og vegurinn orðinn þurr. Þetta er hálfum mánuði áður en elstu menn muna,“ segir Halldór.

Tveir skálaverðir eru nú í skála Ferðafélagsins við Landmannalaugar en alls munu sex til sjö skálaverðir verða þar yfir sumarið í föstu starfi. Vinsældir Landmannalauga hafa aukist með hverju árinu og eru nú einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Halldór segir nokkra þætti skýra vinsældirnar. „Umhverfið þarna, fegurðin og heiti potturinn. Svo er þetta náttúrulega upphafspunktur á Laugaveginum og kannski tiltölulega auðvelt að komast. Bæði er rútutraffík og svo kemst fólk á venjulegum jepplingum.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV