Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Opnar á breytta klukku - þrír kostir skoðaðir

10.01.2019 - 09:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Greinargerðin „Staðartími á Íslandi - stöðumat og tillögur“ hefur verið birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins en þar er fjallað um mögulegar breytingar á klukkunni. „Rannsóknir sýna að nætursvefn Íslendinga er almennt séð of stuttur en slíkt getur verið heilsuspillandi,“ segir í greinargerðinni.

Í greinargerðinni, sem var unnin í forsætisráðuneytinu, er skoðað hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins.

Rannsóknir hafi sýnt að nætursvefn Íslendinga er almennt séð of stuttur og slíkt geti verið heilsuspillandi. Sérstaklega sé þetta áhyggjuefni vegna barna og ungmenna. 

Þrír valkostir eru settir fram. Óbreytt staða en fólk hvatt að ganga fyrr til náða með aukinni fræðslu. Annar valkostur er að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund og þriðji kosturinn í stöðunni er að klukkan verði óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morganna.

Í greinargerðinni eru kostirnir raktir enn frekar. Þar kemur meðal annars að ef klukkan yrði óbreytt yrði staðið fyrir enn markvissari fræðslu um mikilvægi góðs nætursvefns. Kvöldmatur og kvöldviðburðir yrðu færðir framar, opnunartíma verslana yrði breytt og íþróttaæfingar væru ekki eins seint á kvöldin. „Veita mætti foreldrum góð ráð um hvernig eigi að fá unglingana til að sofna fyrr.“ Þá þyrfti að hamla gegn ósiðum sem trufli reglulegar svefnvenjur eins og viðburðum sem standa alla nóttina. „Þá mætti grípa til aðgerða til að draga úr vinnu barna og unglinga langt fram á kvöld.“

Hvað annan valkost varðar, að klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund, er ljóst að allt samfélagið færi einni klukkustund síðar af stað á morgnana en nú er. Ókostirnir væru þeir að birtustundum síðdegis eftir vinnu eða skóla fækkar.  

Í þriðja valkostinum er síðan bent á að ef skólar byrjuðu klukkustund seinna myndi það væntanlega þýða lengri skóladag í hinn endann. Þetta gæti skapað nýtt flækjustig ef skólatími yngri barna og vinnutími foreldra færi ekki lengur saman. 

Í greinargerðinni segir að ekki verði horft fram hjá niðurstöðum vísindarannsókna um sýna fram á áhrif sólarljóss og birtu á heilsu og líðan fólks. Það sé af þessum ástæðum sem ríkisstjórnin hafi samþykkt að hefja skoðun á því hvort breyta eigi klukkunni og færa hana nær raunverulegum sólartíma miðað við hnattstöðu. 

Ár er síðan starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra um leiðréttingu klukkunnar.

Fram kom í Fréttablaðinu að niðurstaðan hefði verið sú að núverandi fyrirkomulag hefði ýmis neikvæð áhrif á heilsufar fólks. Auknar líkur væru á ýmsum sjúkdómum, verri námsárangri, aukinni depurð og klukkuþreytu. Ekki var þó lagt til að tekinn yrði upp sumar- og vetrartími. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV