Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Opnað á lagningu Sundabrautar

20.09.2019 - 19:55
Mynd: RÚV / RÚV
Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgöngumannvirkja og borgarlínu liggur fyrir og verður undirritað á fimmtudaginn í næstu viku. Þar er opnað fyrir möguleikann á að leggja Sundabraut.

Til stóð að skrifa undir samkomulagið fyrir um tíu dögum en þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti málið fyrir þingmönnum stjórnarflokkanna voru gerðar athugasemdir, og undirritun var frestað. Bæjarstjórar sveitarfélaganna fengu síðan í fyrrakvöld drög að nýju samkomulagi sem að óbreyttu verður undirritað á fimmtudaginn í næstu viku.

 Tillögurnar fela meðal annars í sér framkvæmdir upp á 120 milljarða fram til ársins 2033, þar með talið við borgarlínu, og að tekin verði upp veggjöld.

Í kvöldfréttum okkar í gær var greint frá því að í hinum nýju drögum hafi verið bætt við málsgrein sem opni á lagningu Sundabrautar. Þetta staðfestir samgönguráðherra á Facebook-síðu sinni í dag og lýsir hann þeirri skoðun sinni að lágbrú yfir Kleppsvík sé fýsilegri kostur en jarðgöng í Gufunes. Næstu skref felist í viðræðum við Faxaflóahafnir og skipulagsyfirvöld í Reykjavík. Sigurður Ingi fullyrðir að samkomlagið sé í höfn.

„Það er samstarf þriggja ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra með sex sveitarfélögum, í stýrishóp sitja varaformaður og formaður SSH og borgarstjóri og við höfum komið okkur saman um þetta heildarsamkomulag og munum undirrita og kynna í næstu viku.“

Þeir bæjarstjórar sem fréttastofa ræddi við í dag sögðu allir að í nýju drögunum felist ekki stórvægilegar breytingar. Breytingarnar snúist fyrst og fremst um orðalag og á þessari stundu bendi ekkert til  annars en að samkomulagið verði undirritað á fimmtudaginn.