Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Opna fyrsta áfanga hátæknigagnavers á Korputorgi í mars

10.01.2020 - 16:10
epa03741835 A general view shows the inside of the server hall of Facebook in the city of Lulea, some 900 km north of Stockholm, Sweden, 12 June 2013. Facebook started processing data through its first server farm outside the United States. The company
Mynd tekin í gagnaveri Facebook í Svíþjóð. Mynd: EPA
Stefnt er að því að nýtt hátæknigagnaver, Reykjavík DC, verði tekið í notkun við Korputorg 1. mars. Gjaldþrot hollenska fyrirtækisins ICTroom, sem sá um skipulagningu framkvæmda og hönnun gagnaversins, hafði ekki teljandi áhrif á áætlanir um opnun.

Í febrúar 2018 var tilkynnt um byggingu hátæknigagnaversins, en framkvæmdin er samstarfsverkefni Opinna kerfa, Reiknistofu bankanna, Vodafone og Korputorgs. 

Gísli Valur Guðjónsson, stjórnarformaður Reykjavík DC, segir í samtali við fréttastofu að gjaldþrot ICTroom í nóvember hafi í raun ekki getað gerst á betri tíma í ferlinu. Allri hönnun og uppsteypu fyrsta áfanga var lokið.

Reykjavík DC tók í kjölfar gjaldþrotsins yfir verkefnið í heild, réð til sín erlendan verkefnastjóra sem vann að málinu hjá ICTroom og náði að bregðast þannig við að ekki urðu tafir á verkefninu. Vel fyrir gjaldþrot hollenska fyrirtækisins var stefnt að því að opna 1. mars 2020 og þær áætlanir eiga að standast.

Fyrsti græni rafmagnssamningurinn

Landsvirkjun og Reykjavík DC undirrituðu grænan rafmagnssamning í desember um afhendingu á allt að 12 MW til gagnaversins, sem er fyrsta hátæknigagnaverið í Reykjavík og það eina hér á landi sem byggt hefur verið sérstaklega sem gagnaver. Vottaður grænn rafmagnssamningur staðfestir að orkan er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum og uppfyllir Tier3-staðal, en stórir raforkukaupendur í heiminum eru í auknum mæli farnir að krefjast slíks samhliða vaxandi áherslu á loftslagsmál og sjálfbærni.

Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Samsett
Gísli Valur Guðjónsson, stjórnarformaður Reykjavík DC

Gísli Valur segir einnig að Ísland sé hentugur staður fyrir hátæknigagnaver. Hér bjóði loftslagið til að mynda upp á náttúrulega kælingu á tölvubúnaðinum sem kemur í veg fyrir að mikilli orku sé eytt í slíkt. Það sé því umhverfisvænna að knýja slíkt ver hér en víða annars staðar í heiminum.

Orkuþörf getur orðið á við öll heimili samanlagt

Við hönnun hátæknigagnaversins var gert ráð fyrir að reistir yrðu átta salir sem á fullri keyrslu nota um 12 MW, sem er á við orkuþörf allra heimila landsins samanlagt. Nú verður fyrsti salurinn opnaður, en smátt og smátt er stefnt að því að stækka verið. Í þessum fyrsta sal verða gögn Reiknistofu bankanna hýst.

„Ef allt gengur vel getum við vonandi seinna á næsta ári farið að skoða drög að næsta sal,“ segir Gísli Valur. Hönnunin sé til staðar og nokkuð auðveldlega hægt að stækka verið eftir því hver þörf viðskiptavina verður. Fullbyggt er gert ráð fyrir um átta þúsund fermetra byggingu þar sem skápapláss getur verið um fimm þúsund fermetrar.