Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ópíóíðafíkn: „Það eiga allir batavon“

19.01.2018 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þeir eru oftast teknir fram fyrir aðra því þeir eru í bráðri lífshættu.“ Þetta segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Biðlistinn hefur aldrei verið lengri. Valgerður segir ríkið þurfa að styðja betur við sjúkrahúsið.

Það rofar alltaf til

Í gærmorgun komu nokkrir sprautufíklar á Vog og óskuðu eftir því að komast í meðferð. Brot af hópi sem farið hefur stækkandi undanfarin ár. 

„Þetta fólk sem kemur hingað inn er bara hrikalega lasið. Það kemur hingað stundum beint eftir að hafa verið á bráðamóttöku, eftir að hafa bankað upp á á geðdeildinni, frá lögreglunni eða bara að heiman. Þeir eru oft illa leiknir vegna þess að það eru stunguför um allt, kannski sýking í húðinni. Þeir koma hérna inn undir áhrifum, ýmist övandi eða róandi lyfja og við þurfum að passa vel upp á þá fyrst eftir að þeir koma inn og síðan þegar rennur af þeim víman að passa upp á að halda nógu vel utan um þá, svo þeir vilji vera áfram, staldri við.“

Stundum er fíknin svo sterk að fólk fer aftur, þegar runnið er af því. Valgerður segir engan vilja vera í þessari stöðu. Þetta séu álög. 

„Og það rofar alltaf til og þá vill fólk auðvitað ná sér, vera með börnunum sínum og fólkinu sínu, gera það sem það er best í.“ 

Svartsýn 

Það sé mikilvægt að fólk geti fengið aðstoð þegar það óskar eftir henni. Valgerður segir það hneisu að Vogur fái ekki meira fjármagn.

„Að við skulum ekki einu sinni fá fjármagn til að gera það sem við gerum. Það vantaði 250 milljónir upp á það á síðasta ári sem SÁÁ hefur bara borgað með meðferðinni. Það gengur ekki áfram, því miður, og við erum bara svolítið svartsýn fyrir þetta ár, 2018.“

Faraldur í Bandaríkjunum

epa00740434 (FILES) A posed scene shows a man using a syringe to to inject a dose of heroin in a policlinic in Zurich 17 August 1997.  EPA/MARTIN RUETSCHI
 Mynd: EPA - KEYSTONE FILES
Sviðsett mynd.

Á þriðja hundrað sprautufíkla leita á Vog á hveru ári, þar af eru um 200 sem sprauta sig reglulega, ýmist með örvandi lyfjum á borð við rítalín eða sljóvgandi lyfjum á borð við sterk verkjalyf. Lyf úr síðarnefnda flokknum hafa mikið verið í umræðunni og dauðsföllum af völdum ópíumlyfja hefur verið líkt við faraldur. Of stór skammtur af lyfseðilsskyldu verkjalyfi er algengasta dánarorsök Bandaríkjamanna undir fimmtugu og tvær milljónir þeirra eru háðar slíkum lyfjum. 

Notkun átjánfaldaðist á aldarfjórðungi

Notkun Íslendinga á sterkum verkjalyfjum, svokölluðum ópíóíðum, átjánfaldaðist á 25 árum. Árið 1992 seldist einn dagskammtur á hverja þúsund íbúa. Árið 2000 voru þeir 16 á hverja þúsund íbúa og árið 2015 voru dagskammtar á hverja þúsund orðnir tæplega 19. Hluti þessara lyfja ratar í hendur fíkla. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir flesta fíkla verða sér út um þessi lyf á svörtum markaði en hvernig rata þau þangað? Eitthvað er skrifað út í umframmagni og selt, annað er flutt ólöglega til landsins. 

„Einhvers staðar í byrjun eru þessi lyf skrifuð út fyrir verkjum og læknar almennt séð eru á því að það sé full ástæða til að draga úr því á flestum sviðum, meira að segja á bráðamóttöku og algerlega í meðferð langvinnra stoðkerfisverkja.“ 

Hún segir að síðastliðin ár hafi orðið viðhorfsbreyting. Fyrir nokkrum áratugum hafi verið litið svo á að fólk mætti ekki finna til, það yrði að meðhöndla verki með lyfjum. Nú sé frekar horft til þess að meðhöndla verki með sálfræðimeðferð og sjúkraþjálfun. Morfínskyld lyf séu nú nær einungis talin góð meðferð við bráðaverkjum, við að lina þjáningar krabbameinssjúklinga eða við lífslok. 

Dauðsföll ungra fíkla áberandi í umræðunni um aldamótin

En hvenær hófst þetta hér? Valgerður segir að í kringum 2000 hafi verið komin upp alvarleg staða á Íslandi vegna ópíóíðafíknar. Ungt fólk að sprauta ópíóíðum í æð. „Það urðu dauðsföll og þetta var mikið umtal hér sem hreyfði við fólki, tekið fyrir í fjölmiðlum og fleira. Það var til góðs því að var gripið til aðgerða. Við hjá SÁÁ hófum meðferð við þessu. Það er nefnilega til góð meðferð við ópíóíðafíkn, sem er ekki raunin með flestar aðrar fíknir, góð lyf sem eru notuð fyrir fólk sem er í neyslu af þessu tagi, sprauta ópíóíðum í æð, hvort sem það er heróín, contalgen eða oxycodone. Það eru lyf eins og Súboxone og Methadone og þessi meðferð hófst hjá okkur 1999 í lok árs og hefur verið allar götur síðan. Nokkrum árum síðar var Codein tekið úr lausasölu, yfirvaldsaðgerð sem hafði góð áhrif og lyfjagagnagrunnur Landlæknis var settur á laggirnar. Þá hafði hann tök á að fylgja eftir útskriftum og gat komið með inngrip þar sem var einhver pottur brotinn í eftirlitinu.“ 

Jafnvægi - svo aukning aftur

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Í anddyrinu á Vogi.

Þetta hafði allt góð áhrif og Valgerður segir að stór hópur af fólki sem var komið í þessa neyslu hafi skilað sér í meðferð. Eftir 2005 komst á jafnvægi. „Þá var þessi kúfur af nýjum sem höfðu sprautað ópíóíðum í æð kominn niður en samt sem áður bættust alltaf einhverjir við. Síðustu tvö þrjú árin hefur þetta svo aukist aftur og við sjáum aukningu í þessari alvarlegu morfínfíkn.“ 

Metárið 2016

Þessi lyf hafa svipaða virkni og heróín. Árið 2016 náði neyslan óþekktri stærð, þá leituðu 166 á Vog vegna ópíóíðafíknar. Meginþorrinn sprautaði sig. Tölur fyrir síðasta ár liggja ekki fyrir. Vogur heldur skrá yfir þá sem þangað hafa leitað. Í fyrra létust 32 ungir fíklar á listanum, fólk undir fertugu. Árið 2016 voru þeir 27. Aukninguna má að sögn Þórarins Tyrfingssonar, fyrrum yfirlæknis, rekja til þess að fjölgað hefur í hópi ungs fólks sem sprautar sig með morfínskyldum lyfjum. Dauðsföll meðal ungra fíkla hafa að hans sögn ekki verið fleiri frá árinu 2000. Þórarinn telur aukninguna á ótímabærum dauðsföllum nú vísbendingu um að bráðaþjónustu þeim til handa þurfi að auka. Á hann þar við Vog, Bráðamótttöku Landspítalans, sjúkraflutninga og lögreglu, allir séu þessir aðilar í fjársvelti. Það hefur líka færst í aukana að ungt fólk fikti við þessi lyf, taki þau inn eða noti plástra. Það er líka lífshættulegt, segir Valgerður, enda hægt að taka of stóran skammt á hvaða formi sem er. Síðastliðinn áratug hefur þeim sem fiktað hafa við að sprauta efnunum í æð þó fækkað mikið. 

SÁÁ borgaði brúsann

Fyrstu tíu árin greiddi SÁÁ alfarið fyrir meðferð ópíóíðafíkla og ríkið greiðir nú einungis fyrir 90 af þeim 130 sem eru í meðferð. Lyfin sem eru notuð við fíkninni bindast sömu viðtökum í heilanum og morfínskyld lyf og koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni en það er ekki hægt að nota þau sem vímugjafa með því að sprauta þeim í æð. Helmingur þeirra sem nú eru í meðferð hefur verið á þessum lyfjum í fimm ár. „En margir vilja fara af þeim og full ástæða til að trappa þau út en ekki fyrstu árin á meðan þau eru að ná jafnvægi.“ 

„Það eiga allir batavon“

Lyfin eru ekki svo dýr en meðferðin kallar á mikið utanumhald og er því dýr. Valgerður segir dæmi um að fólk sem ekki hefur sprautað sig með ópíóíðum fái þessa meðferð. „Það getur verið ástæða til þess ef fólk er í lífshættu en þessi meðferð er vandmeðfarinn, mikilvægt að það sé gott utanumhald og ekki skynsamlegt að gera fólk hátt einhverju lyfi ef það er ekki hátt því fyrir, það er flókið að velja inn.“ Margir hafi náð stórkostlegum bata.

„Þau eru bara að vinna og ala upp börn og gengur vel. Það er það sem dregur mann áfram að sjá hvað hægt er að gera mikið. Það eiga allir batavon, þetta er allt ungt fólk.“ 

Skaðaminnkun góð en þeir sem vilja hætta þurfi líka hjálp

Fíklar geta fengið hreinar sprautur í apótekum og bráðaaðstoð á sjúkrahúsum. Rauði krossinn starfrækir skaðaminnkunarverkefnið Frú Ragnheiði. Sjúkrabíllinn Frú Ragnheiður ekur um götur höfuðborgarsvæðisins sex kvöld í viku og þar geta fíklar fengið aðhlynningu og ráðgjöf. Þá hefur Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra,  sett af stað vinnu í velferðarráðuneytinu til að undirbúa opnun neyslurýma fyrir langt leidda vímuefnaneytendur. Valgerður segir skaðaminnkun góða og gilda en það þurfi líka að vera hægt að hjálpa fólki sem vill hætta í neyslu. 

„Þessi neysla er lífshættuleg, mjög alvarleg og það þarf að gera allt til að reyna að stoppa hana.“