Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Óöryggið eykst og launin lækka“

13.09.2017 - 14:58
Mynd: Kristinn Ingvarsson / Kristinn Ingvarsson
„Fram er sprottin ný stétt fólks sem er í lausamennsku og nýtur ekki starfsöryggis eða réttinda.“ Þetta segir Guy Standing, hagfræðingur við Lundúnaháskóla. Hann kallar þessa stétt Prekaríat, stétt hinna ótryggu, og hefur skrifað um hana bækur. Hann telur að innan áratugs verði þriðjungur vinnuframlags í heiminum inntur af hendi í gegnum netið og án þess að ráðningarsamband sé til staðar. Þróunin eigi eftir að þrýsta launum niður og grafa undan stöðugleika. Lausnin í hans huga - borgaralaun.

Guy Standing kom til landsins á dögunum og flutti erindi í tengslum við verkefni Háskóla Íslands, Hreyfanleiki og þverþjóðleiki á Íslandi.

Kerfið allt að breytast

Standing, sem áður leiddi stefnumótun í vinnumarkaðsmálum hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni segir að kerfið í kringum vinnumarkaðinn hafi breyst, efnahagskerfið hafi breyst og stéttakerfið hafi breyst. Þetta megi rekja til hnattvæðingarinnar og tæknibyltingarinnar sem hafi haft áhrif um allan heim. Ferlið hófst að hans sögn með tilkomu nýfrjálshyggjunnar en nú er ný stefna tekin við. Rentier-kapítalismi. Eignir, hvers konar, skili sífellt meiri hagnaði en vinna skili sífellt minni hagnaði.

Stéttakerfið

„Á toppnum trónir fámenn stétt ofurríkra. Gamla verkalýðsstéttin er nú klofin í tvennt. Annars vegar launamenn sem eru fastráðnir, búa við starfsöryggi og njóta réttinda. Hins vegar þeir sem búa við óöryggi, eru í lausamennsku gegn vilja sínum, eru skuldsettir og  í raun upp á góðvild annarra komnir. Það má ekkert út af bera því fátæktin býður handan hornsins. Þetta er stétt hinna ótryggu.“ Hana skipar að sögn Standings alls konar fólk; starfsnemar, verktakar, eldri borgarar, Uber-bílstjórar, innflytjendur. Sumir eru hámenntaðir, aðrir ekki. 

Svona er lífið

Standing segir að þeim sem tilheyra þessari stétt sé tjáð að þeir þurfi að sætta sig við að svona sé lífið, þeir geti ekki reitt sig á fasta vinnu og verði að ráða sig tímabundið, taka að sér eitt og eitt verkefni eða gigg. Þá sé það ný þróun að verk eru keypt á netinu og unnin á netinu. „Innan tíu ára verður eitt af hverjum þremur verkum sem greitt er fyrir unnið á netinu og án þess að til staðar sé formlegt ráðningarsamband milli verkkaupa og þess sem vinnur verkið,“ segir Standing. 

Þær aðstæður sem leiða til þessa óöryggis og óstöðugleika eru að hans sögn nýjar. „Það er nýtt að þetta allt komi saman, óstöðug vinna, lágar bætur, lág laun. Fólk reiðir sig meira og meira á peningagreiðslur, réttindin fylgja ekki með og það er líka að tapa réttindum sínum sem borgarar.“ Hvað varðar borgaralegu réttindin segir Standing að fólk átti sig oft ekki á því að það hafi misst réttindi fyrr en á reyni. „Þú vilt kannski leita réttar þíns vegna einhvers en hefur ekki efni á lögfræðiþjónustu. Þú hefur ekki starf og tengslanetið í kringum það og þú missir líka lífsfyllinguna sem fylgir því að gegna ákveðnu starfi, ákveðnu hlutverki í samfélaginu, að verða eitthvað og vera eitthvað.“

Vinnur of lítið og of mikið 

„Fólk sem tilheyrir stétt hinna ótryggu skortir fasta vinnu en það vinnur á sama tíma of mikið. Það þarf að gera ýmislegt launalaust, fara á námskeið, fylla út form eða umsóknir.“  Í bók sinni tekur Standing dæmi um unga konu, félagsráðgjafa, sem er með tímabundna ráðningu og lág laun. Hún vinnur launalaust öll kvöld í von um að fá fasta stöðu og hækka í launum en ekkert gerist. 

Hann segir algengt að störfin sem bjóðast þessu fólki hæfi ekki menntunarstigi þess. Margir stígi út úr námi með þá hugmynd í kollinum að það bíði þeirra vellaunað framtíðarstarf. Þetta unga fólk upplifi að það hafi verið blekkt, og sitji uppi með háar námslánaskuldir. Hann segir líka algengt að menn á sextugsaldri sem störfuðu kannski sem bifvélavirkjar eða hafnarverkamenn missi þá vinnu og lendi í Prekaríatinu. „Það má segja að þetta fólk búið við tilvistarlegt óöryggi,“ segir Standing.

Áhrifanna muni gæta hér

„Þessari stétt tilheyra milljónir manna og það fjölgar í henni.“ Þróunin á sér að hans sögn stað um allan heim,  nýlega hafi hann séð rannsókn frá Kína, sem renndi undir það stoðum. En hvað um Ísland? Standing bendir á að hér sé hátt hlutfall fólks skráð í stéttarfélag, jafnrétti kynjanna lengra á veg komið en víða annars staðar, misskipting minni, bótakerfið enn virkt. Þróunin eigi þó eftir að verða hér eins og annars staðar. „Þegar ég flutti fyrirlestur í Danmörku fyrir nokkrum árum sögðu starfsmenn stéttarfélaganna, þetta gerist ekki hér en nú hefur það færst í aukana að fólk þaðan skrifi mér, segist tilheyra þessari nýju stétt. Þeir sem eiga kost á atvinnuleysisbótum til dæmis, finna oft ekki vinnu sem borgar betur, þeir festast í fátæktargildru - þetta á við í öllum norrænu ríkjunum.“

Útvistun á neti þrýsti launum niður

Útvistunarþróunin er löngu hafin, símaver vestrænna fyrirtækja til dæmis oft rekin í fjarlægum löndum. Standing segir að útvistun og verkkaup í gegnum netið eigi eftir að færast í aukana og samkeppnin eigi eftir að þrýsta launum niður. Tæknin gerir fyrirtækjum mögulegt að flytja inn vinnuafl án þess að fólk fari á milli landa. Forritari eða arkítekt á Indlandi geti unnið fyrir íslenskt fyrirtæki, veitt nokkurn veginn sömu þjónustu og íslenskur kollegi fyrir miklu lægri upphæð. Þetta vandamál fer vaxandi og ríkisstjórnir og aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki brugðist við því, segir Standing. 

Segir Pírata og Podemos á réttri leið

Allt þetta óöryggi grefur undan stöðugleika og er hættulegt, að mati Standings. Gremjan og óttinn sem fólk finnur geti gert það móttækilegra fyrir hugmyndafræði þjóðernisöfgahreyfinga. Hann telur að gera þurfi róttækar breytingar á kerfinu, það þýði ekki að horfa til fortíðar og það þýði ekki að hanga áfram í nýfrjálshyggjunni - því þá verði hagkerfið áfram brothætt, kreppur á fimm ára fresti með tilheyrandi þjáningu. Nýir flokkar á borð við Pírata, Podemos á Spáni og Alternativet í Danmörku séu á réttri leið þó að þeir séu ekki komnir með lausn. Þá bindur hann vonir við ungt menntafólk sem tilheyrir Prekaríatinu, fólk sem hafnar gamla kerfinu og leitar að nýrri, framsækinni stefnu. 

Hann segir að aðilar vinnumarkaðarins þurfi að móta stefnu sem gerir ráð fyrir þessari þróun, annars verði milljónum til viðbótar ýtt út í tilvistarlegt óöryggi.  Í hans huga liggur lausnin að einhverju leyti í því að taka upp borgaralaun. Þau geti verið eins konar akkeri þegar kemur að launadreifingunni. 

Ekki bara ungt fólk

Stundum er talað um að unga fólkið sem nú er að koma út á vinnumarkaðinn búi við verri kjör en kynslóðin á undan því. Standing segir þetta rétt en vandinn sé ekki kynslóðabundinn, þetta snúist ekki um spennu milli kynslóðanna. Í þessari nýju stétt sé vissulega margt ungt fólk, en líka eldra fólk, margar konur.   

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV