Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óöryggi ríkir á Landspítalanum

21.10.2019 - 19:52
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Óöryggi ríkir meðal bæði starfsfólks Landspítalans og sjúklinga, segir yfirlæknir á bráðamóttöku. Á deildinni ríki verulega slæmt ástand og hafi gert lengi. Ráðherra segir að fjölgun hjúkrunarrými eigi að hjálpa ástandinu á spítalanum. „Þetta kemur seint og þess vegna finnst okkur vera allt of lítið í augnablikinu,“ segir Jón Kristján Magnússon, yfirlæknir á bráðamóttöku. Fjármálaráðherra segir eitthvað að í kerfi sem taki sífellt við stórauknum fjármunum en lendi viðstöðulaust í rekstrarvanda.

Gripið hefur verið til skipulagsbreytinga og niðurskurðar á Landspítalanum til að mæta hallarekstri. Spítalann vantar 500 milljónir á ári til að takast á við vanreiknaðar launahækkanir lækna. Þetta bitnar á sjúklingum.

„Fólk fær ekki rétta þjónustu, á réttum tíma á réttum stað. Það er kannski auðveldast að sjá þetta eins og á bráðamóttökunni þar sem fólk bíður jafnvel dögum saman eftir því að komast á viðeigandi deild,“ segir Marta Jónsdóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.

Ekki er unnt að framfylgja reglunni um að fólk bíði ekki lengur en sex tíma á bráðamóttöku eftir innlögn á aðra deild. 

„Það  kemst ekki inn á legudeildina fyrr en jafnvel nokkrum sólarhringum síðar. Þá bíður það jafnvel í gluggalausu rými eða bíður á göngum,“ segir Marta.

Nú er verið að skoða enn frekari niðurskurðaraðgerðir.

„Það er alltaf þannig að þegar það er verið að skera niður þá er eitthvað sem lætur undan. Á einhvern hátt bitnar þetta á sjúklingunum. Það er bara verið að reyna að stýra því í hversum miklum mæli það er,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Marta segir að öryggi sjúklinga sé ógnað. 

„Það eru t.d. aldrei slökkt ljós. Fólk finnur ekki mun á nóttu eða degi. Það eru ekki nægilega mörg salerni til að sinna þörfum þessa fólks. Það er ekki hægt að setja fólk í einangrun ef þarf á því að halda vegna smitsjúkdóma eða annars. Það er aukin hætta t.d. að fá sýkingar. Það er aukin hætta á legusárum ef þú bíður of lengi á bráðamóttökunni,“ segir Marta. 

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

„Þetta er verulega slæmt ástand sem hefur lengi verið á bráðamóttökunni,“ segir Jón Magnús.

Er nóg verið að gera akkúrat núna til þess að bæta úr?

„Vandinn er fyrst og fremst sá hversu seint var brugðist við,“ segir Jón.

„Það eru 40 legurými lokuð vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Og núna bíða 30 sjúklingar á bráðamóttökunni vegna skorts á legurýmum. Fólk er að vinna mjög mikið, sinna miklu fleiri sjúklingum en það myndi vilja gera, undir ofsalega miklu álagi og með alltof lág laun. Það er held ég mjög stór hluti starfsfólksins alveg að fá nóg og það verður að gera eitthvað til þess að við getum búið á þessari eyju,“ segir Marta.

Er verjandi að hafa þetta svona?

„Við höfum í sjálfum sér engann betri kost. Við erum í það erfiðri stöðu. Starfsfólk finnur óöryggi um það hvað er framundan. Starfsfólk finnur óöryggi um það hvernig það eigi að geta hugsað um þá sem leita hingað til okkar. Og ég finn líka fyrir óöryggi hjá sjúklingunum um það hvort þeir fái þá þjónustu sem þeir þurfi á að halda,“ segir Jón. 

Niðurskurður á Landspítalanum og áhrif hans á þjónustu við sjúklinga var rætt á Alþingi í dag bæði þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og þegar Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, spurðu ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

Heilbrigðisráðherra benti á að Landspítalinn væri bæði að sinna þeim sem ættu að vera á hjúkrunarheimilum og þeim sem ættu að leita til heilsugæslunnar. 

„Við erum að fjölga hjúkrunarrýmum í stórkostlega mikilvægri uppbyggingu sem stendur hér yfir og samstarf milli heilsugæslunnar og bráðamóttökunnar hefur leitt það af sér að komum á bráðamóttökuna hefur fækkað um 10% og það fólk fer núna til heilsugæslunnar,“ svaraði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðirsráðherra (V).

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist taka það alvarlega þegar bent sé á að öryggi sjúklinga sé í hættu vegna rekstrarvanda spítalans. 

„Hins vegar höfum við verið á undanförnum árum að stórauka framlög til Landspítalans eins og annars staðar í heilbrigðiskerfinu, við höfum á sama tíma verið með ábendingar um að við gætum mögulega nýtt fjármuni betur í heilbrigðiskerfinu og þetta eru greinilega atriði sem við þurfum að fara ofan í saumana á. Það er eitthvað að í kerfi sem tekur sífellt við stórauknum fjármunum en lendir viðstöðulaust í rekstrarvanda. Það eru örfá ár síðan við skárum af margra milljarða uppsafnaðan rekstrarvanda á Landspítalanum og við höfum stóraukið framlögin til spítalans þannig það er enginn niðurskurður sem hefur verið í gangi þar. Varðandi launabæturnar þá er þetta frekar einfalt hjá okkur, við reiknum upp kostnað einstakra stofnana við nýja kjarasamninga og við bætum það upp að fullu, þarna er greinilega einhver ágreiningur sem hefur verið í skoðun milli stjórnkerfisins og Landspítalans og það þarf að fá botn í það,“ segir Bjarni.

Þannig að þú sérð það alveg fyrir þér að þið munuð aðstoða spítalann?

„Það stendur ekki annað til en að láta Landspítalann eins og allar aðrar opinberar stofnanir hafa það sem þarf til að standa undir kjarasamningum,“ segir Bjarni.