Önnur leið en um Teigsskóg kalli á endurmat

15.12.2018 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Vegagerðinni er óheimilt að leggja til leið fyrir Vestfjarðaveg um Gufudalssveit sem er óöryggari og dýrari en annar kostur segir Vegamálastjóri. Hún segir að velji sveitarstjórn Reykhólahrepps að fara aðra leið þurfi að endurmeta stöðuna og þá lendir málið í höndum stjórnvalda.

Beri að leggja til hagkvæmasti og öruggasta kostinn

Niðurstaða valkostagreiningar á leiðarvali um Gufudalssveit, sem var unnin fyrir Reykhólahrepp, er að vænlegasta leiðin sé leið R um Reykhóla með þverun yfir Þorskafjörð. Niðurstöður verða kynntar íbúum þann 18. desember og sveitarstjóri Reykhólahrepps gerir ráð fyrir því að sveitarstjórn taki ákvörðun um leiðarval í byrjun næsta árs. Vegagerðin telur hins vegar að valkostagreining breyti engu um það að leið um Teigsskóg komi best út þegar litið er til öryggis, greiðfærni, styttingar á leiðum og hagkvæmni. Þá sé sú framkvæmd fullfjármögnuð í tillögu að samgönguáætlun. „Við höfum í sjálfu sér ekki leyfi til þess að leggja til leið sem er óöruggari og dýrari  heldur en það sem kemur best út hvað það varðar,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri. Fari svo að sveitarstjórn velji aðra leið en tillögu Vegagerðarinnar þurfi að vinna nýtt skipulag og jafnvel umhverfismat og ljóst að framkvæmdir geti tafist um fleiri ár. 

Sveitarfélag beri kostnað af kostnaðarmun

Í vegalögum um vegi og skipulag segir að fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal rökstyðja það sérstaklega. Þá sé óheimilt að víkja frá tillögu Vegagerðarinnar um legu þjóðvegar ef það leiðir til minna umferðaröryggis. Valkostagreining telur leið R þó ekki vera óöruggari. Þá er heimilt að krefja sveitarfélag um kostnaðarmun, sé leiðarval sveitarstjórnar dýrara.

Hafa ekki tekið afstöðu

Ef sveitarstjórn ákveður að setja leið R í aðalskipulag liggur ekki fyrir hvernig brugðist verður við, segir Bergþóra. „Það þarf ekki speking til að sjá það að Reykhólahreppur borgar ekki mismuninn á þessum framkvæmdum miðað við þau gögn sem liggja fyrir núna varðandi kostnað. Ef þetta verður ofan á þá  verður bara að endurmeta stöðuna, fara í nánari útfærslur og því um líkt og sjá bara hvað yfirvöld í landinu vilja gera.“

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi