Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Önnur konan fannst látin

11.06.2014 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Önnur kvennanna, sem leitað hefur verið að í Fljótshlíð, fannst látin í Bleiksárgljúfri. Konan sem var erlend var á ferðalagi ásamt íslenskri vinkonu sinni. Enn er leitað að íslensku konunni.

Leit hófst að konunum í gær þegar tilkynnt var um að ekkert hefði spurst til þeirra frá því á laugardag. Við leit í gljúfrinu í gærkvöld fannst önnur þeirra látin í vatninu. Konurnar eru báðar á fertugsaldri. 

Um 70-90 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni auk TF-Syn, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem leitar á vatnasvæði Markarfljóts. Sérhæft leitarfólk, gönguhópar og kafarar eru nú við leit í innanverðri Fljótshlíðinni. Einnig hafa leitarhundar verið notaðir. 

Gönguhópar fara af aftur af stað eftir hádegi og þá verður leitað í og við Bleiksárgljúfur, sem er innarlega í Fljótshlíð, og víðar á þeim slóðum.

Bleiksárgljúfur er í um 25 kílómetra fjarlægð frá Hvolsvelli og er vinsæll áningastaður ferðamanna. Gljúfrið er alldjúpt og á köflum þröngt og getur verið hættulegt yfirferðar. Aðstæður til leitar í því eru því erfiðar.