Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Ömurlegt“ að ganga gegnum þriðja verkfall

15.10.2015 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Heilbrigðisráðherra segir það ömurlega stöðu að samfélagið sé að ganga í gegnum þriðju hrinu verkfallsaðgerða í heilbrigðiskerfinu á einu ári. Varaformaður Samfylkingarinnar segir það gerast á hans vakt og að á sama tíma sé ríkisstjórnin að lækka veiðigjöld og skatta hjá þeim sem hæstar hafi tekjur.

Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar vakti athygli á alvarlegri stöðu í heilbrigðiskerfinu nú þegar verkföll sjúkraliða og SFR væru hafin. Sextán hundruð starfsmenn Landspítalans væru í verkfalli og á þau væri ekki hlustað þótt þau væru á skammarlega lágum launum.

Hún beindi máli sínu til heilbrigðisráðherra. „Og á hans vakt hafa þrjú alvarleg verkföll skollið hér á með þeim afleiðingum sem við höfum horft hér uppá inní heilbrigðiskerfinu að auki er öll stefnumörkun sett í uppnám ítrekað innan þessarar ríkisstjórnar varðandi framtíðarsýn um byggingu nýs spítala,“ sagði Katrín og kvað að á sama tíma lækki ríkisstjórnin skatta á þá sem hæstar hafi tekjurnar og skilar frá sér tekjum af veiðigjöldum.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur áhyggjur af síendurteknum verkföllum. „Ég tek undir og deili með háttvirtum þingmönnum áhyggjum af stöðu heilbrigðismála í landinu að teknu tilliti til þeirrar þjónustu sem heilbrigðiskerfið á að veita í ljósi þeirra verkfalla sem dunið hafa yfir það á síðastliðnu ári. Og það er rétt núna er þriðja hrynan að ganga yfir og þetta er ömurlega staða.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV