Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ómögulegt án pólitísks vilja

19.02.2014 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist á Alþingi í kvöld telja að án pólitísks stuðnings við aðildarumsókn væri ómögulegt að ljúka málinu. „Þá hljótum við að vera sammála um að hér er ákveðinn ómöguleiki til staðar."

„Ég hef verið hlynntur því að við hlustuðum eftir vilja þjóðarinnar í þessu máli. Ég tel að hann birtist með ýmsum hætti, ekki bara með nýjustu skoðanakönnunum," sagði Bjarni í umræðu um skýrslu um ESB-aðildarviðræður á Alþingi í dag. Bjarni sagðist telja að vilji þjóðarinnar birtist líka í kosningum. Þess vegna reyndu flokkar að hafa skýra stefnu í Evrópumálum í flokkssamþykktum sínum. „Það er alveg skýrt að þeir flokkar sem eru andvígir aðild eru með yfirburðastuðning hér í þinginu," sagði" Bjarni. „Þetta skiptir máli." 

„Ákveðinn ómöguleiki til staðar“
„Ég hef lengi brotið heilann um það hvort ekki væri hægt að koma til móts við kjósendur í landinu hvað þetta atriði snertir," sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðslur um framhald ESB-viðræðna. Bjarni sagðist skilja að fólk segðist vilja greiða atkvæði um málið þar sem óvissa væri um hvernig því yrði framhaldið, en það væri líka ljóst að lítill hluti væri fylgjandi aðild að Evrópusambandinu.

Hann sagðist telja að án pólitísks stuðnings við aðildarumsókn væri ómögulegt að ljúka málinu. „Þá hljótum við að vera sammála um að hér er ákveðinn ómöguleiki til staðar."

Báðir stjórnarflokkar andvígir inngöngu
„Öllum er ljóst að báðir stjórnarflokkarnir eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið," sagði Bjarni. Hann kvað mikilvægt að skýrslan væri komin fram. Í henni væri meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum í Evrópusambandinu – það væri miður að það hefði ekki farið meira fyrir því í umræðunni hérlendis.

Bjarni sagði miður að ekki hefðu legið fyrir samningsmarkmið í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum þegar ákvörðun var tekin um að gera hlé á viðræðunum. Þetta væru málaflokkar þar sem stjórnvöld hefðu lagt sérstaka áherslu á að ná góðri niðurstöðu. Þar sem samningsmarkmið hefðu ekki verið mótuð væri erfitt að meta gang viðræðnanna.

Misskilningur um undanþágur
Bjarni sagði útbreiddan misskilning hérlendis um undanþágur sem hefðu verið veittar í aðildarviðræðum. Hann sagði að Danir hefðu náð fram einni undanþágu þegar Evrópusambandinu var breytt með Maastricht-samkomulaginu, það væri vegna þess að hvert og eitt aðildarríki hefði haft neitunarvald á breytingarnar. Því hefðu Danir verið í annarri stöðu sem aðildarríki við þær aðstæður en Ísland sem umsóknarríki nú. Eins hefðu Malta fengið sérreglur um fiskveiðar á afleiddri löggjöf sambandsins. „Þetta þýðir það að sambandið getur síðar breytt viðkomandi löggjöf með meirihlutaákvörðun. Það getur gerst. Í tilviki ríkisstuðnings við landbúnað er líka um að ræða reglur sem ekki eru beinn hluti stofnsáttamálans heldur þarf framkvæmdastjórnin að jafnaði að heimila ríkisstyrki, hvort styrkja megi þetta og hitt landbúnaðarhérað og að hvaða marki." Þetta væri ekki nokkuð sem tryggt væri að ríki héldu um aldur og ævi.

Norðmenn í svipaðri stöðu á sínum tíma
Bjarni vísaði í orð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingar, um að ekkert sambærilegt dæmi væri um stöðu aðildarríkis sem ætti við um stöðu Íslands núna. Þessu andmælti Bjarni. Hann taldi kröfur Norðmanna í sjávarútvegsmálum sambærilegar við stöðu Íslendinga. Norðmenn hefðu látið reyna á ýmislegt en það hefði í engu gengið eftir.

Umfjöllun í nefnd bindi ekki hendur þingsins
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði hvort fjármálaráðherra væri til í að senda skýrsluna til umfjöllunar í utanríkismálanefnd Alþingis. Bjarni sagðist ekki leggjast gegn því en sagði að það ætti þó ekki að binda hendur þingsins ef það vildi taka ákvörðun um næstu skref þó utanríkismálanefnd væri ekki búin að ljúka umfjöllun sinni. 

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði hvað hefði breyst síðan fjármálaráðherra og menntamálaráðherra skrifuðu grein þar sem þeir tóku vel í að sækja aðild að Evrópusambandinu. Hann sagði að það væru svik ef ríkisstjórnin myndi ekki setja framhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og þeir hefðu lofað. Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði samþykkt á landsfundi sínum að viðræðum yrði ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, það væri það umboð sem flokkurinn hefði í ríkisstjórn.

Spurði hvort staðið yrði við loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, sagðist ekki þekkja Bjarna af öðru en að hann stæði við orð sín. Hann spurði því hvort hann myndi ekki efna loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð aðildarviðræðna. Bjarni sagðist ekki vilja endurtaka það sem hann hefði sagt í dag, hann hefði lýst vilja til að hlusta á vilja þjóðarinnar, en svaraði ekki beint út hvort þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um framhald aðildarviðræðna. Hann tiltók þó að það væri pólitískur ómöguleiki að ljúka málinu þegar báðir stjórnarflokkarnir væru andvígir aðild að Evrópusambandinu.

[email protected]