Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólýsanlegt að fá malbik til Borgarfjarðar

30.09.2019 - 21:03
Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Það er ólýsanlegt að fá malbikaðan veg á Borgarfjörð eystra, segja heimamenn. Sem hafa barist fyrir bættum vegsamgöngum í áratugi. Ferðatíminn styttist og ferðamenn séu öryggari.

 

Vegurinn til Borgarfjarðar eystra liggur um Vatnsskarð og Njarðvíkurskriðu sem nú hefur fengið andlitslyftingu með bundnu slitlagi. Vatnsskarð Héraðsmegin verður malbikað næsta sumar en síðasti spölurinn upp skarðið Njarðvíkurmegin, var malbikaður fyrir helgi.

Þið látið ekki þokuna stoppa ykkur hérna? „Nei, við erum að reyna að klára þetta. Það er lítið eftir,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri hjá Héraðsverki. „Samkvæmt útboðsgögnunum átti við rauninni að ekkert að leggja á þennan kafla hérna fyrr en á næsta ári. En það var sameiginleg ákvörðun Vegagerðarinnar og verktakans að reyna að leggja á þessa tvo og hálfan kílómeter í haust og það er að takast,“ segir Viðar jafnframt.

Sem er mikið fagnaðarefni fyrir heimamenn sem hafa lengi barist fyrir bættum vegsamgöngum. Þeir mótmæltu ástandi vegarins í fyrra og helltu yfir hann steypu til að vekja athygli á ástandi hans. „Þetta er dásamlegt. Það er bara ekki hægt að lýsa því hvað þetta er mikill munur,“ segir Jakob Sigurðsson, oddviti Borgarfjarðarhrepps

„Hann hefur mjög mikið að segja. Maður heyrir það á ferðamönnum að þeir voru skíthræddir eftir að hafa keyrt yfir fjallið,“ segir Elísabet Sveinsdóttir, íbúi á Borgarfirði eystra. En vonandi ekki lengur? „Nei nú breytist mikið. Mjög mikið.“

„Viðhald á tækjum sem fara yfir, þetta verður bara allt annað,“ segir Jakob jafnframt. Hvað heldurðu að þetta stytti ferðatímann mikið? „Ég skal ekki segja. Manni finnst maður bara vera allt í einu kominn.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV