Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ólöglegum geldingum á grísum hætt í dag

28.05.2014 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Svínaræktendur segjast alfarið hættir ólöglegum geldingum á grísum án deyfingar, strax í dag. Dýraæknar muni framvegis gelda grísina með deyfingu. Til lengri tíma litið hljóti að vera best fyrir velferð dýranna að hætta geldingum alfarið.

Í kjölfar frétta RÚV af ólöglegum geldingum hafa svínaræktendur sætt gagnrýni. Formaður Svínaræktarfélags Íslands sagði að myndir sem RÚV sýndi af geldingum í öðrum löndum væru ekki eins og geldingar hér.  

Á dögunum birti íslenskur svínaræktandi myndband af geldingu á netinu en eyddi því síðan út.  Forsvarsmaður búsins sagði við fréttastofu að hann hefði verið beðinn um að fjarlægja myndbandið.  Fréttastofa hefur það undir höndum og geldingin er síst mildilegri en það sem tíðkast erlendis. Forsvarsmenn svínaræktenda urðu ekki við ítrekuðum óskum fréttastofu um að fá að mynda geldingu í íslensku svínabúi.

Samkvæmt upplýsingum frá svínaræktendum eru 40.000 grísir geltir á Íslandi á hverju ári, eða tæplega 800 á viku að meðaltali. Samkvæmt því hafa um 16 þúsund grísir verið geltir frá því ný dýravelferðarlög tóku gildi um áramót.

Svínaræktendur óskuðu á mánudag eftir fundi með Matvælastofnun um geldingar á grísum. Fundurinn fór fram í dag og síðdegis sendi Svínaræktarfélag Íslands svo frá sér yfirlýsingu. Þar segir að vegna umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga vilji félagið, ásamt Landssamtökum sláturleyfishafa, koma því á framfæri að svínaræktendur muni alfarið hætta að gelda grísi með þeim hætti sem gert hefur verið. Leitað verði allra leiða í samstarfi við dýralækna, sláturleyfishafa og Matvælastofnun.

Hörður Harðarson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir að breytingin verði fyrst og fremst sú að núna muni dýralæknar framkvæma geldingar með deyfingu. „Málið er þannig lagað séð komið úr höndum bænda og ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta taki gildi strax í dag,“ segir Hörður.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir fagnar þessu og segir að yfirlýsing svínaræktenda komi á óvart: „Já, í sjálfu sér, því í rauninni hefur mér þótt voðalega leiðinlegt einmitt að hlusta á þessar, ja ég kalla þetta afsakanir eða fyrirslátt svínabænda, þegar þeir hafa nefnt að það sé eitthvað annað eða einhverjir aðrir sem standi í veginum fyrir því að þeir geti fylgt lögunum. Og svo er ekki. Þeir hafa nefnt til dæmis að það vanti nýja reglugerð um aðbúnað eða velferð svína. En hún hefur ekkert með svínageldingar að gera. Lögin eru sjálf mjög skýr". 

[email protected]