Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ólögleg verslun með afurðir ógnar dýrategundum

06.06.2016 - 14:29
Mynd: - / wikipedia
Í gær var alþjóðlegur dagur umhverfisins sem að þessu sinni var helgaður baráttunni gegn ólöglegum viðskiptum með afurðir úr villtum dýrum. Stefán Gíslason fjallar um það í pistli sínum sem lesa má hér að neðan.

 

Í gær var alþjóðlegur dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur eins og gert hefur verið 5. júní á hverju ári, allt frá því að Stokkhólmsráðstefnan var haldin árið 1972 og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að slíkur dagur skyldi haldinn árlega. Tilgangurinn með degi umhverfisins er að efla vitund fólks um allan heim um mikilvægi þess að vernda náttúruna og hvetja til aðgerða í því skyni.

 

Á hverju ári er eitt að aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna valið sem gestgjafi fyrir dag umhverfisins. Á síðasta ári var Ítalía í gestgjafahlutverkinu sem forgönguríki í baráttunni fyrir betri næringu og ábyrgari auðlindanotkun, en nú var röðin hins vegar komin að Afríkuríkinu Angóla.

 

Ástæða þess að Angóla varð fyrir valinu sem gestgjafi að þessu sinni er sú að þarlend yfirvöld hafa lagt áherslu á að vernda og endurheimta fílahjarðir í landinu og vinna að verndun hins fjölbreytta lífríkis sem landið státar af, á sama tíma og unnið er að endurbyggingu eftir borgarstyrjöldina sem staðið hefur yfir í landinu í meira en aldarfjórðung.

 

Dagur umhverfisins er jafnan helgaður tilteknu málefni. Þema ársins 2016 eru ólögleg viðskipti með afurðir úr villtum dýrum, en þessi viðskipti eru farin að ógna tilvist heilu dýrategundanna, svo sem nashyrninga og tígrisdýra. Þessi glæpsamlegu viðskipti grafa líka undan öryggi og hagkerfum þjóða, sérstaklega í þróunarlöndunum. Með því að vera gestgjafar á Degi umhverfisins vilja stjórnvöld í Angóla stuðla að vitundarvakningu og senda skýr skilaboð um að bundinn verði endir á glæpi af þessu tagi.

 

Í Angóla eru m.a. heimkynni ljóna, stórra apategunda og safalaantílópunnar, sem allt eru tegundir í bráðri útrýmingarhættu samkvæmt rauðum lista Alþjóðanáttúruverndar-samtakanna IUCN. Ríkisstjórn landsins hleypti nýlega af stokkunum röð verkefna til að stuðla að friðun og styrkja framfylgd laga og reglugerða. Á síðasta ári kynnti stjórnin sérstaka framkvæmdaáætlun um fílabein í tengslum við aðild landsins að CITES-samningnum um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu. Áætlunin felur m.a. í sér harðari refsingar fyrir veiðiþjófnað og sölu á fílabeini, bætta þjálfun fyrir landverði og hert eftirlit á alþjóðaflugvellinum í höfuðborginni Lúanda. Stjórnvöld í Angóla vinna einnig að stofnun verndarsvæða sem ná yfir landamærin við Botswana og Namibíu, þ.á.m. í Okavango óshólmunum.

 

Kjörorð dags umhverfisins 2016 er: „Go wild for life“, eða „Villidýr fyrir lífið“, eins og það hljómar í lauslegri íslenskri þýðingu. Markmið dagsins er að efla vitund fólks um það hvernig ólögleg verslun með afurðir dýra í útrýmingarhættu minnkar líffræðilegri fjölbreytni, eyðir náttúruverðmætum, hrekur heilu tegundirnar fram á barm útrýmingar, grefur undan vistkerfum og hagkerfum, eflir skipulagða glæpastarfsemi og stuðlar að spillingu og öryggisleysi um heim allan.

 

Sem dæmi um afleiðingar glæpastarfsemi á þessu sviði má nefna að árið 2011 dóu Javan nashyrningar út í Víetnam og síðustu svörtu nashyrningarnir hurfu af sjónarsviðinu í Kamerún. Þá finnast ekki lengur stórir apar í Gambíu, Búrkína Fasó, Benín og Tógó. Í þessum löndum eru simpansar nú með öllu útdauðir og að öllum líkindum fylgja fleiri lönd fljótlega í kjölfarið. Af minna þekktum eða áberandi fórnarlömbum má nefna tilteknar tegundir nashyrningsfugla og hreisturdýra, villt brönugrös og trjátegundir á borð við rósavið. Blóm og tré eru jú líka hluti af hinni villtu náttúru! Margt fleira mætti reyndar nefna. Á þriggja ára tímabili 2010-2012 voru t.d. drepnir 100.000 afrískir fílar úr stofni sem samtals telur 500.000 dýr. Með sömu afköstum þarf ekki nema 15 ár til að drepa hvert einasta kvikindi, jafnvel þótt tegundin hafi lifað á jörðinni í aldir eða árþúsund. Frá árinu 2009 hafa stofnar afrískra Savannafíla í Tanzaníu og Mósambík minnkað um 50-60% og á árunum 2009-2014 er talið að 170 tonnum af fílabeini hafi verið smyglað út úr Afríku. Síðustu ár hefur ástandið reyndar farið sífellt versnandi. Á síðustu 8 árum hefur veiðiþjófnaður á nashyrningum í Suður-Afríku t.d. níutíufaldast og á síðasta ári er talið að alls hafi verið drepnir 1.338 nashyrningar í Afríku allri. Þá er talið að á hverju ári fækki stórum öpum í heiminum um 3.000 stykki. Umsvifin í ólöglegri verslun með hreisturdýr eru þó hvað mest. Á einum áratug hefur um milljón slíkum dýrum verið rænt úr náttúrunni og á sama tíma hafa veiðiþjófar myrt um 1.000 landverði á verndarsvæðum. Samanlögð velta ólöglegrar verslunar með lífverur í útrýmingarhættu er nú talin vera 15-20 milljarðar Bandaríkjadala á ári, en það samsvarar 1.800-2.400 milljörðum íslenskra króna. Þetta eru svipaðar tölur og nefndar hafa verið í sambandi við sölu á eiturlyfjum, ólöglega vopnasölu og mansal. Þar fyrir utan eru árlega veidd ólöglega 11-26 milljón tonn af fiski og er veltan í þeirri starfsemi áætluð 10-23 milljarðar Bandaaríkjadala. Þessu fylgir eyðing fiskistofna, verðhækkanir og afkomubrestur hjá heiðarlegum útgerðum og sjómönnum.

 

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað venjulegt fólk geti gert til að snúa þessari óheillaþróun við. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að engar ólöglegar dýraafurðir myndu seljast ef enginn vildi kaupa þær. Þess vegna er ekki nóg að beina sjónum að glæpahringjum sem stunda þessi viðskipti, heldur þurfa neytendur líka að líta í eigin barm. Degi umhverfisins er ætlað að minna fólk á hlutverk sitt á þessu sviði. Allir þurfa að láta sig þessi mál einhverju varða, hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

 

Það er ekki bara náttúran sem nýtur góðs af aðgerðum til að fyrirbyggja veiðiþjófnað og ólölega sölu afurða úr lífverum í útrýmingarhættu. Þannig hefur verið reiknað út að á árinu 2012 hafi verndaraðgerðir skilað 36 milljörðum Bandaríkjadala inn í hagkerfi landanna sunnan Sahara, en það samsvarar meiru en 7% af þjóðarframleiðslu þeirra. Munar þar mestu um aukna ásókn ferðamanna eftir að stjórnvöld gripu til sinna ráða til að koma í veg fyrir veiðiþjófnað og ólöglega verslun. Sem dæmi um þjóðhagsleg áhrif má nefna að talið er að í Uganda auki hver górilla, sem heldur lífi, tekjur ferðaþjónustunnar um milljón dollara á ári. Af öðrum löndum þar sem mikill árangur hefur náðst má nefna Nepal þar sem nashyrningastofninn hefur stækkað um 21% á síðustu 5 árum.

 

Íslendingar hafa líklega ekki orðið mikið varir við dag umhverfisins í gær, enda eru Íslendingar svo sérstakir að þeir ákváðu fyrir nokkrum árum að halda sjálfir upp á sérstakan alíslenskan dag umhverfisins 25. apríl í stað þess að halda daginn hátíðlegan 5. júní eins og aðrar þjóðir. Það gæti samt verið góð hugmynd að nota það tækifæri sem gefst 5. júní á hverju ári til að minna okkur sjálf og hvert annað á að Ísland er vissulega hluti af heiminum í umhverfislegu tilliti. Við eigum mikið undir því, ekkert síður en aðrar þjóðir, að fjölbreytni náttúrunnar verði viðhaldið, jafnvel þótt við lítum bara á málið út frá efnahagslegum forsendum. Við, rétt eins og allar aðrar þjóðir, eigum allt okkar undir því að ekki séu klippt of stór göt á vef lífsins. Við ófum nefnilega ekki þennan vef. Við erum bara hluti af honum. Gáleysisleg inngrip í náttúruna geta komið í bakið á okkur þegar minnst varir og með óvæntum hætti. Dagur umhverfisins minnir okkur á þetta.

 

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður