Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ólöf: „Ég hef ekki vald í málinu“

10.12.2015 - 21:51
Mynd: RÚV / RÚV
Ólöf Nordal innanríkisráðherra segist engar heimildir hafa til að breyta úrskurðum Útlendingastofnunar eða veita fólki dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hún vill að málefni útlendinga verði tekin til umræðu á Alþingi í næstu viku, vegna umræðu um brottvísun 27 ríkisborgara frá Albaníu og Makedóníu í nótt.

Tvö lítil og langveik börn voru í hópnum sem var vísað úr landi í nótt, og margir hafa gagnrýnt flutninginn harðlega. Foreldrarnir sóttu um dvalarleyfi af mannúðarástæðum en var hafnað af Útlendingastofnun. Þau kærðu til úrskurðarnefndar en drógu síðan kærur sínar til baka. Fréttastofu er ekki kunnugt um ástæður þess.

„Þetta eru auðvitað óskaplega erfið mál, og ábyggilega erfiðustu málin sem Útlendingastofnun þarf að takast á við. Mér hefur alltaf þótt það að þegar kemur andlit á þetta fólk þá verður þetta svo óskaplega erfitt. En þarna er verið að fara eftir þessari umgjörð sem við höfum skapað um þessi tilteknu mál, og það var reynt að gera það með réttum hætti eins og Útlendingastofnun ber að gera,“ segir Ólöf.

5000 hafa krafist afsagnar

Um 5000 manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun á netinu, þar sem þess er krafist að Ólöf sendi aftur eftir fólkinu, eða segi ella af sér embætti innanríkisráðherra.

„Ég er ekkert undrandi á því að fólk beini reiði og vonbrigðum gegn mér, enda er ég ráðherra í þessum málaflokki. En ég verð líka að biðja fólk að skilja það að ég hef ekki vald í þessum tilteknu málum,“ segir Ólöf og bendir á að um áramótin hafi tekið í gildi breytingar á lögum sem koma í veg fyrir að ráðherra geti beitt sér í málum útlendinga.

„Það er búið að færa valdið frá ráðuneytinu til úrskurðarnefndar, vegna þess að menn töldu að stjórnmálamenn ættu ekki að vera að vasast í þessum málum, þannig að ég hef ekki vald í málinu. En ég eins og aðrir hér hef tilfiinningar og ég skil þessar heitu tilfinningar, en ég bið fólk jafnframt að skilja það hvert mitt valdsvið er í málinu.“

Boðar umræður á Alþingi 

Þarna er verið að flytja fólk í frekar óvissar aðstæður, það telur sig ekki hafa aðgang að nógu góðu heilbrigðiskerfi, ertu sammála þessari ákvörðun Útlendingastofnunar?

„Ég á svo erfitt með að leggja mat á þessa ákvörðun án þess að hafa öll þessi gögn fyrir framan mig. Á engum tímapunkti hefur þetta mál komið á mitt borð, enda gæti ég ekkert gert með það. En ég hygg að Útlendingastofnun hafi gengið úr skugga um að fjölskyldurnar geti fengið heilbrigðisþjónustu í heimalandinu, það er nokkuð sem við verðum að treysta á,“ segir Ólöf.

Hún segir að Alþingi hafi verið sammála um að úrskurðarvaldið lægi ekki í ráðuneytinu heldur hjá sérstakri úrskurðarnefnd. Hún telji að það hafi verið rétt ákvörðun. 

„En ef fólk telur það hafa verið skref aftur á bak og Alþingi telur að ekki hefði átt að gera það finnst mér sjálfsagt að eiga það samtal við Alþingi. Ég vil endillega hefja þá umræðu á Alþingi og er tilbúin að taka sérstaka umræðu um það í næstu viku, því þá er það önnur nálgun en sú sem við höfum haft. Þessi breyting tók gildi um áramótin, en ég held að margir haldi að úrskurðarvaldið sé hér. En það er það ekki.“

Þótt Ólöf segist bera traust til Útlendingastofnunar, þá kveðst hún taka málið nærri sér. „Það er auðvitað mjög sárt að sjá þetta,“ segir hún. „fAuðvitað finnur maður til. Maður væri ekki manneskja ef maður gerði það ekki.“