Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Öllum fyrirtækjunum stjórnað af körlum

16.02.2019 - 17:46
Allir stjórnendur fyrirtækja í Kauphöll Íslands eru karlar. Á undanförnum sjö árum hafa fjórtán karlmenn verið ráðnir forstjórar hjá fyrirtækjunum. Formaður Viðskiptaráðs segir stöðuna dapurlega. Sterk staða Íslands í jafnréttismálum sé ekki viðskiptalífinu að þakka.

14 karlar ráðnir síðan 2012 en engin kona

Kynjahallinn á Alþingi jókst töluvert eftir síðustu kosningar og hefur hlutfall kvenna þar ekki verið lægra síðan 2007, rúm 35 prósent. Karlar eru í meirihluta í sex fastanefndum af átta. En þingið er á ágætisróli miðað við meirihluta stórra íslenskra fyrirtækja.

Í Kauphöll Íslands eru átján fyrirtæki. Í þeim starfa átján karlar sem forstjórar eða framkvæmdastjórar, engin kona. Sé litið til stjórnarformanna eru þar tólf karlar og sex konur. Þær eru í Arion banka, Marel, Högum, Símanum, Sjóvá og VÍS. 14 karlmenn verið ráðnir forstjórar hjá fyrirtækjunum síðan 2012, engin kona. 

Karlarnir eru fyrirmyndirnar

Fyrir þremur árum tók kona við formennsku í Viðskiptaráði, Katrín Olga Jóhannesdóttir, í fyrsta sinn frá stofnun þess, 1914. Á nýafstöðnu viðskiptaþingi vakti hún athygli á stöðu kvenna í viðskiptalífinu. 

„Mér finnst hún dapurleg, ég verð að viðurkenna það. Það er verið að missa af viðskiptalegum ávinningi,” segir Katrín Olga. „Þetta er auðvitað hefðin, fyrirmyndirnar eru karlarnir, eðlilega. Og eðlilega kannski þegar konur eru að banka á, vilja þeir ekki hreyfa sig.”

Ekki íslensku viðskiptalífi að þakka

Lög um kynjakvóta tóku gildi fyrir sex árum, en samt stýra konur innan við tíu prósentum af 400 stærstu fyrirtækjum landsins. 

„Það er ekki vegna íslensks viðskiptalífs sem Ísland er númer eitt í jafnréttismálum, það er út af opinbera geiranum,” segir hún og undirstrikar að brýnt sé að fá fleiri karla að borðinu til að vinna bug á kynjahallanum.  „Það er svo auðvelt að afgreiða konur sem tala um jafnréttismál því þú ert á vissan hátt að tala um sjálfa þig,” segir hún. „Mig svíður það sem formaður Viðskiptaráðs, því við vinnum út frá því að einkaframtakið og frelsi einstaklingsins sé það sem skipti máli. Þess vegna finnst mér að við eigum að vera til fyrirmyndar þarna.”