Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Öll skógrækt undir einn hatt

03.06.2016 - 05:45
Mynd með færslu
Úr Hallormsstaðaskógi Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Samþykkt voru á Alþingi í gær lög sem miða að stofnun nýrrar stofnunar á sviði skógræktar, sem taka á yfir og sameina öll verkefni Skógræktar ríkisins annars vegar og landshlutaverkefna í skógrækt hins vegar. Undir landshlutaverkefni falla Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Norðurlandsskógar, Héraðs- og Austurlandsskógar og Suðurlandsskógar, auk umsjónar með Hekluskógum.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að markmiðið sé að samhæfa starf umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á sviði skógræktar með því að gera stjórnsýsluna í málaflokknum skilvirkari, auka faglega getu og styrkja byggð. Nýja stofnunin fær einfaldlega nafnið Skógræktin. Gert er ráð fyrir að höfuðstöðvar hennar verði á Fljótsdalshéraði, þar sem Skógrækt ríkisins hefur höfuðstöðvar sínar í dag.

Ekki er reiknað með að þessar breytingar hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, en þeim er heldur ekki ætlað að draga úr útgjöldum. Búist er við að kostnaður við yfirstjórn lækki, en ráðgert að nýta megi það fé sem þannig sparast í kjarnastarfsemi hinnar nýju stofnunar.

Ekki er heldur gert ráð fyrir uppsögnum starfsfólks, því Skógræktin tekur yfir alla ráðningarsamninga Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna. Skógræktin hin nýja á samkvæmt lögunum, sem samþykkt voru samhljóða með atkvæðum 45 þingmanna úr öllum flokkum, að taka formlega til starfa þann 1. júlí næstkomandi.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV