Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öll Norðurlöndin búin að velja sér lag

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Öll Norðurlöndin búin að velja sér lag

08.03.2020 - 16:24

Höfundar

Sigurvegarar frá því í fyrra og þáttakendur í hæfileikakeppnum í sjónvarpi eru meðal þeirra sem Norðurlandaþjóðirnar tefla fram í Eurovision í ár, en öll Norðurlöndin hafa nú valið sitt framlag. Sænskir og danskir sérfræðingar álíta íslenska lagið geta veitt þeirra framlögum einna mesta samkeppni.

Auk Íslendinga höfðu Norðmenn þegar valið sitt framlag til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir helgina. Lag Norðmanna, Attention, er sungið af Ulrikke.

Í gærkvöld völdu svo Svíar og Danir sín framlög, auk Finna, sem kusu til leiks Aksel Kankaanranta, sem syngur lagið Looking back.

Kankaanranta á það sameiginlegt með dönsku þátttakendunum að hafa tekið þátt í hæfileikaþáttum í sjónvarpi, á borð við X-Factor og Voice. Fulltrúar Danmerkur heita Ben og Tan, þau tryggðu sér sigur í gær með lagi sínu Yes. 

Sænska tríóið The Mamas siigraði svo sænska Melodifestivalin í gærkvöld með laginu Move. 

Og þyki einhverjum þær þrjár koma kunnuglega fyrir sjónir er það vegna þess að þær sungu bakraddir hjá John Lundvik, sem tók þátt fyrir hönd Svíþjóðar í fyrra. Það þarf að fara aftur til ársins 1972 í sænskri söngvakeppnissögu til að finna sama sigurvegarann tvö ár í röð. 

Á vef sænska ríkissjónvarpsins og þess danska eru tilteknir þeir keppendur sem eru taldir geta veitt dönsku og sænsku lögunum hvað harðasta samkeppni. Og á báðum stöðum er tiltekinn keppandi sem þeim þykir sigurstranglegur, Daði okkar Íslendinga og Gagnamagnið hans.