Öll komin af jöklinum

08.01.2020 - 00:51
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveitir eru á leið til Gullfoss með síðasta hópinn af fólki sem lenti í vandræðum vegna veðurs og ófærðar við Langjökul í kvöld. Starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins sem stóð fyrir ferðinni er í síðasta snjóbílnum, sem lagði af stað frá jöklinum laust eftir tvö, en ferðalangarnir 39 fóru í tveimur snjóbílum á undan þeim. Björgunarsveitarfólk á jeppum tekur á móti fólkinu miðja vegu og flytur það áfram í Gullfosskaffi, þar sem hlúð verður að því.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, sagði stundarfjórðungi fyrir þrjú í nótt, að allir hóparnir væru komnir að jeppunum, sem flytja þá síðasta áfangann.

Fyrstu leitarhópar komu til vélsleðafólksins skömmu fyrir hálf eitt í nótt. Fyrstu leitarhóparnir voru á vélsleðum, en rétt fyrir eitt bættist fyrsti snjóbíllinn í hópinn, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Tveir til viðbótar voru þá á leið á vettvang. Sá fyrri kom þangað um hálftvö en  sá þriðji um tvöleytið.

Fréttin var uppfærð klukkan 02.45.

Sveinn segir allt fólkið hafa verið í skjóli inni í bílum þegar að var komið, en enginn hafi verið kominn í skálann við Skálpanes. Ekki stendur til að fara með fólk þangað, heldur verður nú hafist handa við að ferja það niður af hálendinu og í Gullfosskaffi. Þessir fólksflutningar munu þó taka tímann sinn því enn er þreifandi bylur við jökulinn, skyggni lítið sem ekkert og færð afar þung. Það má því reikna með að björgunaraðgerðir haldi áfram vel fram eftir nóttu.

Snjóbílarnir fara hægt yfir, en þeir eru traustir, hlýir og taka marga farþega, segir Davíð Már, og fólki verður forgangsraðað í þá eftir ásigkomulagi þess. Þeir Sveinn höfðu engar haldgóðar upplýsingar um ástand fólksins þegar rætt var við þá á fyrsta tímanum. Davíð segir þó ljóst að það sé bæði kalt og skelkað, en lítið er vitiað umfram það. Gildir þetta jafnt um ferðalangana 39 og starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins, sem er í kringum tuginn.

Í Gullfosskaffi verður svo hlúð að fólki og því gefið matur og drykkur áður en haldið verður áfram til enn neðri byggða.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er um sama ferðaþjónustufyrirtæki að ræða og fór með fólk í vélsleðaferð fyrir þremur árum þrátt fyrir að Veðurstofan hefði varað við stormi. Áströlsk hjón sem voru í þeirri ferð óttuðust að verða úti.

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi