Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Öll félög BSRB undirbúa verkfallsaðgerðir

28.01.2020 - 17:17
BHM · BSRB · Efling · Innlent · kjarasamningar
Mynd: BSRB / BSRB
Vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 klukkustundum í 36 samkvæmt tillögum sem nú er verið að kynna í félögum opinbera starfsmanna. Vinnuvikan getur styst enn meira hjá þeim sem ganga kvöld- nætur- og helgarvaktir og farið niður í 32 stundir. Ef tillögurnar verða samþykktar gæti það liðkað fyrir samningum. Það er þó ekki víst því öll félög innan BSRB er byrjuð að undirbúa verkfallsaðgerðir.

Hingað og ekki lengra

Um næstu mánaðamót verða liðnir tíu mánuðir frá því að samningar voru lausir. Það er komin þreyta í samningamenn. BHM, BSRB og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boða til baráttufundar í Háskólabíói á fimmtudaginn. Yfirskrift fundarins er: Kjarasamningar strax, hingað og ekki lengra. Fundinum verður streymt víða um land. Í fundarboði segir að ef samningar náist ekki strax sé fátt annað í stöðunni en verkfallsaðgerðir. Sameyki hefur samþykkt að byrjað verði að undirbúa verkfallsaðgerðir. Samkvæmt heimildum Spegilsins eru öll félög innan BSRB byrjuð að undirbúa aðgerðir. Eftir fundinn í Háskólabíói er stefnt að því að félögin efni samtímis til atkvæðagreiðslu um verkföll.

Verkfallsaðgerðir í næstu viku

Um helgina samþykktu 95% þeirra sem greiddu atkvæði að hefja verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Fyrstu aðgerðir hefjast að óbreyttu 4. febrúar eða í næstu viku. Eftir upphlaup um daginn, þegar samninganefnd Eflingar neitaði að funda með samninganefnd borgarinnar, hafa verið haldnir tveir fundir hjá sáttasemjara. Eftir því sem næst verður komist hefur staðan ekki breyst mikið en samkvæmt upplýsingum Spegilsins hafa samskiptin á fundunum mýkst talsvert.

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbrún Þóra Löve
Félögin og viðsemjendur

Tillögur um vaktavinnuna ræddar

Nokkuð er síðan samkomulag um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki var tilbúið á samningaborðinu. Hins vegar hefur dregist á langinn að finna lausn á styttingu vinnutíma þeirra sem ganga vaktir. Nú virðist sjá fyrir endann á því. Vaktavinnuhópur, sem fulltrúar stéttarfélaganna og viðsemjenda þeirra eiga sæti í, hefur unnið hörðum höndum upp á síðkastið. Var að störfum alla síðustu helgi og skilaði tillögum um styttingu vinnuvikunnar í gær. Verið er að kynna þær í félögunum. Hópurinn kemur saman á morgun og fer yfir athugasemdir sem koma frá baklandinu.

Vinnuvikan getur farið í 32 stundir

Þetta er flókið mál en í grunninn er gert ráð fyrir að vinnuvika vaktavinnufólks styttist úr 40 virkum vinnutímum í 36 tíma. Það þýðir að vöktum fækkar um sirka tvær á mánuði hjá þeim sem ganga átta tíma vaktir. Lagt er til að hjá þeim sem vinna kvöld- nætur- og helgarvaktir eða þrískiptar vaktir geti styttingin komist niður í 32 tíma. Það gerist vegna þess sem kallað er frímínútur. Klukkustundin á þessum vöktum reiknast sem 72 mínútur.

Sama vinna en hærri laun

Það eru margir sem eru í hlutastarfi. Sá sem er til dæmis í 80% starfi á núna að skila 32 klukkustundum. Ef þessar breytingar ná fram að ganga gæti hann haldið áfram að vinna í 32 stundir en starfshlutfallið færi í 100%. Ynni sama tímafjölda en fengi hærri laun. Þess ber að geta að gert er ráð fyrir að þótt vinnuvikan styttist hjá vaktavinnufólki haldi það óbreyttum launum. Það er líka hvatt til þess að dregið verði úr vægi 12 tíma vakta og sömuleiðis fjögurra tíma vakta sem kallaðar eru stubbavaktir.

Sitja og reikna

En það eru ýmsir lausir endar. Þessar breytingar munu kosta bæði sveitarfélögin og ríkið talsvert. Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki þýðir að annað hvort verði að skerða þjónustu eða bæta við starfsfólki. Samkomulag er um að þjónusta verði ekki skert. Bæði hjá sveitarfélögunum og ríkinu sitja menn nú og reikna en eftir því sem næst verður komist eru þessir launagreiðendur tilbúnir að leggja í þann kostnað.

Flestir viðmælendur Spegilsins telja að ef samkomulag næst um vaktavinnuna muni það liðka fyrir samningum. Að breytingarnar eigi eftir að hafa í för með sér umtalsverðar breytingar til hins betra hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Nýjar kröfur

Hins vegar eru enn ljón í veginum. Nýtt ágreiningsefni hefur skotið upp kollinum í viðræðum BSRB við sveitarfélögin eftir að 18 félög innan Starfsgreinasambandsins sömdu um sérstakan félagsmannasjóð. Í hann renna sem nemur 1,5% af launum og hægt er að taka upphæðina út úr sjóðnum einu sinni á ári. Þetta var niðurstaðan í deilum aðila um jöfnun lífeyrisréttinda. Nú krefjast félögin innan BSRB þess sama og tekist er á um þessa kröfu.

En það á líka eftir að semja um jöfnun launa milli markaða. BSRB vil að tekið verði skref í átt til jöfnunar í þessum kjarasamningum. Þegar lífeyrisréttindi voru samræmd var samþykkt sérstakt ákvæði um að jafna laun milli hins opinbera og almenna markaðarins. Það er líka tekist á um breytingar á orlofi sem lýtur meðal annars að vetrarorlofi. Fram að þessu hefur verið talið að sjálfur launaliðurinn yrði auðveldur. Nú er það alls ekki víst.

Lágmarkslaun strax 500 þúsund

Ríkið hefur þegar samið við fimm félög innan BHM. Ellefu félög sem halda hópinn sætta sig ekki við þá samninga. Þau sætta sig ekki við þær launahækkanir sem samið var um. Krafa félaganna er að lágmarkslaun verði komin í 500 þúsund afturvirkt frá 1. apríl. Einnig sætta þau sig ekki við að yfirvinna verði tvenns konar. Verði 0,85 af mánaðarlaunum fram að 40 tímum en nái núverandi vægi eftir það. Félögin 11 telja að þetta hafi í för með sér launalækkun, sérstaklega hjá þeim sem eru í hlutastarfi.