Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óljóst hvað verður gert við Blátind á botninum

14.02.2020 - 19:49
Mynd: Myndir: Helgi Rasmussen Tórzham / Myndir: Helgi Rasmussen Tórzham
„Við tökum okkur nokkra daga í að meta stöðuna og förum og skoðum þetta á mánudaginn, hvað verður gert varðandi skipið,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um skipið Blátind sem sökk í ofsaveðrinu í höfninni í Vestmannaeyjum í morgun. Miklar truflanir hafa orðið á rafmagni í Eyjum í dag, sem Íris segir að sé með öllu óviðunandi.

Myndirnar í meðfylgjandi frétt eru frá tigull.is auk þess sem Helgi Rasmussen Tórzhamar tók myndir af Blátindi úr Herjólfi.

Veðrið skall á töluvert fyrr en búist var við í Eyjum og sinntu björgunarsveitir fjölmörgum útköllum, aðallega þar sem þakplötur og klæðningar höfðu fokið. 

„Það voru á fjórða tug útkalla en við eigum eftir að meta hvaða skemmdir eru. En við vitum þó af talsverðu foktjóni,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Fornfrægur bátur

Mesta eignatjónið varð á tíunda tímanum þegar báturinn Blátindur losnaði frá bryggju. Óttast var að hann ræki upp í fjöru eða kletta en hann tók svo óvænta stefnu aftur inn í miðja höfnina. Lóðsinn fór á eftir bátnum og tókst að ýta honum að skipalyftunni þar sem báturinn var bundinn að nýju. Örfáum mínútum síðar sökk báturinn hins vegar á aðeins einni mínútu. 

„Auðvitað erum við með áhyggjur af því hver staðan á skipinu er. Blátindur var byggður hérna í Eyjum í kringum miðja síðustu öld og gefinn Vestmannaeyjabæ upp úr aldamótum. Það var búið að finna honum þarna stað og hann átti að vera þar til sýnis og vera prýði. Við tökum okkur nokkra daga í að meta stöðuna og förum og skoðum þetta á mánudaginn, hvað verður gert varðandi skipið,“ segir Íris.

Þá hafa orðið töluverðar rafmagnstruflanir í Eyjum í dag. Rafmagn hefur ekki borist frá landi og því hefur verið keyrt á varaafli, sem getur verið ótraust.

„Eins og staðan er núna, þá er verið að skammta rafmagn í ákveðnum hverfum. Og það er verið að skiptast á, fólk er beðið um að spara rafmagn, fyrirtæki eru lokuð, fiskvinnslurnar eru lokaðar, margar stofnanir eru lokaðar. Það er ekki nægt rafmagn hérna, og þetta sýnir enn og aftur hvernig innviðirnir eru varðandi rafmagnsflutninga á Íslandi,“ segir Íris.