Olíusala dróst saman í fyrsta sinn frá 2012

24.03.2020 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson, Kris - RÚV
Olíusala var minni hér á landi í fyrra en í hitteðfyrra. Það var í fyrsta skipti frá árinu 2012 sem olíusala dróst saman. Fall WOW air ræður þar mestu.

Olíusala á Íslandi hefur aldrei verið meiri en árið 2018 þegar hún fór í fyrsta skipti yfir milljón tonn. Mikil umskipti urðu í fyrra þegar salan var rétt rúmlega 900 þúsund tonn og hafði þá dregist saman um þrettán prósent frá metárinu 2018. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Orkustofnunar. Þar má sjá að olíusala dregst saman milli ára í fyrsta skipti síðan 2012 þegar erlendum ferðamönnum tók að fjölga verulega.

Olíusalan minnkaði um 138 þúsund tonn milli ára. Þar af var samdrátturinn 106 þúsund tonn vegna flugvélaeldsneytis. Þann samdrátt má að mestu rekja til falls WOW air fyrir ári. Samdrátt í olíusölu vegna samgangna á landi má væntanlega að stórum hluta rekja til fækkunar ferðamanna auk bættrar orkunýtingar nýrra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og sífellt fleiri raf- og tengiltvinnbíla. Hlutur þeirra síðastnefndu í nýskráningu bíla fór úr fimmtán prósentum árið 2018 í nítján prósent í fyrra, að því er fram kemur í tilkynningu frá Orkustofnun. Það sem af er ári er það hlutfall komið í 37 prósent.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi