Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Olíublautur æðarfugl á Seyðisfirði

02.08.2019 - 18:10
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Íbúi á Seyðisfirði náði myndbandi af æðarfugli í andaslitrunum. Fuglinn var blautur af olíu en slíkt er að sögn íbúans algeng sjón.

Hlynur Vestmann Oddsson, íbúi á Seyðisfirði, tók myndbandið. Hann segir að það sé algengt að sjá dauða æðarkolluunga og olíublauta fugla í firðinum. Hann segir olíulekann koma frá El Grillo, skips­flak­inu á botni fjarðarins. Það sé viðvarandi vandamál sem hafi verulega neikvæð áhrif. Hlynur er mikið á sjó og verður vel var við olíulekann í firðinum. „Þetta var aldrei almennilega hreinsað og alltaf þegar sjór fer að hlýna, á þessum árstíma, eykst rennslið úr skipinu.“ Nú sé svo komið að nánast engir æðarkolluungar séu eftir. Þeir verði olíunni að bráð og silfurmáfurinn sé fljótur að grípa þá þegar þeir eru að drepast.

Myndbandið af æðarfuglinum tók hann fyrir tveimur dögum síðan. Hlynur segir að olíulekinn hafi áhrif á allt fuglalíf í firðinum en æðarfuglarnir fari verst út úr honum. „Þeir synda hérna með ungana, þurfa að synda í gegnum brákina sem berst með sjávarföllunum inn í fjörðinn,“ segir Hlynur. 

Breska olíuskipið El Grillo sökk í Seyðisfirði í febrúar 1944 eftir að þýskar flugvélar vörpuðu sprengjum á það. Ein sprengjan hæfði skipið, sem laskaðist og sökk að hálfu leyti. Bretar ákváðu í kjölfarið að sökkva skipinu en mikið var af olíu um borð og í gegnum tíðina hefur olía lekið úr skipinu og mengað fjörðinn. Árið 2001 var ráðist í hreinsunaraðgerðir og olíu dælt upp úr flakinu. Eftir þær aðgerðir var vonast til þess að olíumengun yrði ekki vandamál í framtíðinni en Hlynur segir að það þurfi að gera eitthvað í málnum. „Það þarf að fjarlægja skipið úr firðinum. Það er ekki gaman að búa í mengaðasta firði á Ísland“ segir hann.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir