Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólíkar skoðanir á fundi um endurskoðun stjórnarskrár

09.11.2019 - 19:20
Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Á þriðja hundrað manns ræða og fræðast um endurskoðun á nokkrum atriðum stjórnarskrárinnar um helgina. Fundurinn nefnist rökræðukönnun. Þarna eru engir jábræður, heldur fólk með ólíkar skoðanir og bakgrunn. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir.

Þessi 230 manna hópur tók þátt í viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar í sumar og tekur fyrir sex atriði sem byggð eru á minnisblaði forsætisráðherra. Það eru ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf og framsal valdheimilda. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur umsjón með rannsókninni:

„Reyndar held ég í öllu þá eru þetta dálítið ólíkar skoðanir hérna inni. Og við erum í sjálfu sér svo sem ekkert að reyna að sætta sjónarmið heldur erum að reyna að fá fram sem flest viðhorf og sem flestar skoðanir. Það má alveg búast við því að það verði kannski aðeins meiri ágreiningur í sambandi við kjördæmaskipan og framsal valdheimilda.“

Einn þátttakandi kvartaði yfir því við fréttastofu að hann fengi ekki að ræða við aðra þátttakendur um frumvarp stjórnlagaráðs frá 2011 um stjórnarskrá og sagði að sér hefði verið bannað að gera það í fundarhléum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Valgerður Jóna Eyglóardóttir.

Valgerður Jóna Eyglóardóttir fékk eins og aðrir töluvert lestrarefni til að undibúa fundinn og hún las það allt.  Jafnræði í stjórnarskránni er aðalatriðið, segir hún: 

„Að allir hafi jafnan rétt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Benedikt Sigurjónsson.

Benedikt Sigurjónsson íbúi í Neskaupstað segir að fundurinn víkki sjóndeildarhringinn því setið sé til borðs með alls konar fólki víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Að heyra viðhorf viðhorf annarra sé mikils virði: 

„Forsetaembættið er mikilvægt og svo kjördæmaskipan í númer tvö held ég, að það sé mjög mikilvægt að við fáum nýjar leiðir í kjördæmaskipan.“

Þetta segir þú búandi á Norðfirði?

„Já það er búið að telja mér trú um það alla vega.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Ólöf Þorvaldsdóttir.

Ólöf Þorvaldsdóttir segir að hún hafi þó nokkra þekkingu á stjórnarskránni og að henni hafi þótt fróðlegt að hlusta á sérfræðingana sem svöruðu spurningum umræðuhópanna: 

„Ég verð að segja að ég sakna þess að fá ekki tækifæri til þess að ræða um auðlindaákvæðið. Það er ekki inn í þessari umræðu. Hins vegar finnst mér þetta náttúrulega óþarfi. Það er búið að kjósa um þessi mál. Þjóðin er búin að segja það sem henni finnst hafa þurft 2012.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Guðjón Þór Jósefsson.

Guðjón Þór Jósefsson er 19 ára er ánægður með samráðið og fyrirkomulagið á fundinum: 

„En mér finnst líka athugavert að velja að sleppa til dæmis umfjöllun um auðlindaákvæðið.“

Á hverju hefurðu mestan áhuga?

„Ég reikna með kjördæmaskipan, að hafa landið sem eitt kjördæmi. Og svo kannski líka bara um forsetahlutverkið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Sigrún Oddgeirsdóttir.

Sigrún Oddgeirsdóttir segir fundinn góðan fyrir fólk eins og hana sem mikið séu að pæla í þessum málum. Hann sé upplýsandi bæði það að fá að heyra um ástæður núverandi ákvæða í stjórnarskránni og um það hverju þurfi að breyta. Hún á nokkrar óskir: 

„Við eigum ekki að innleiða lög sem til dæmis senda ríkisborgara úr landi eða skylda ríkisborgara úr landi til dæmis. Og jarðareignir Íslendinga eiga að vera í eigu Íslendinga ekki erlendra auðmanna. Þetta er eitthvað sem bara skiptir öllu máli fyrir Ísland held ég og fullveldi þjóðarinnar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV