Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ólík sýn á veiðigjöld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarandstæðingar töluðu fyrir aukinni gjaldtöku af sjávarútvegi meðan formenn stjórnarflokkanna vöruðu við því í leiðtogaumræðum RÚV. Formenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar hvöttu til uppboðs á veiðiheimildum meðan forsætisráðherra sagði að allar þær þjóðir sem hefðu reynt slíkt hefðu horfið frá þeirri leið.

Sanngjarnari hluti af auðlindarentunni á að skila sér til þjóðarinnar, sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna. Hún sagði kerfið þurfa að vera sjálfbært og að byggðafesta þyrfti að vera innan greinarinnar.

„Með kvótakerfinu náðum við góðum árangri í umhverfismálum en það varð til þess að nýliðun varð ekki næg,“ sagði Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar. Eins hefði framsalið leitt til efnahagslegs árangurs en ekki orðið til að skila ávinningnum til þjóðarinnar. „Núna er útboð á aflaheimildum en það er ekki þjóðin sem gerir það heldur útgerðarmennirnir sjálfir.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagðist vilja bjóða út þrjú prósent veiðiheimilda á ári til að ná fram verðmyndun. Afraksturinn af útboði, fimmtán milljarða á ári, ætti að nota í þeim byggðum þar sem kvótinn væri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði uppboðsleiðir á veiðiheimildum óráðlegar. Þetta hefði verið reynt víða en alls staðar hefðu stjórnvöld horfið frá þessari leið vegna þess að hún hefði reynst illa. Um þetta væru Eistland, Rússland, Grænland og Suður-Ameríka dæmi. Hann sagði veiðigjöldin í dag ekki byggð á nægilega góðum grunni og finna þyrfti réttu leiðina.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði kvótakerfið og framsal hafa skilað því að nú veltu menn því fyrir sér hvernig hægt væri að skattleggja greinina meira en gert hefur verið. Í upphafi hefðu menn reynt að bæta afkomuna í sjávarútvegi vegna þess hversu slæm hún hefði verið. Bjarni sagði glapræði að fara í uppboð, hann sagði hugmyndir Viðreisnar ganga út á að taka allan arð úr greininni.

Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að þjóðin ætti að fá meiri arð af auðlindum sínum. Nú fengu fyrst og fremst útvaldir aðilar arðinn. Því væri flokkurinn fylgjandi uppboðsleið.

Stefna Pírata er um margt svipuð stefnu Samfylkingarinnar, sagði Birgitta Jónsdóttir, oddviti Pírata. Munurinn væri þó sá að Píratar legðu mikla áherslu á handfæraveiðar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV