
Ólík menning leitt til samstarfserfiðleika
Öll svið stjórnsýslunnar eru við Strandgötu og Linnetsstíg, utan umhverfis- og skipulagssviðs sem er við Norðurhellu. Þar er einnig þjónustumiðstöð bæjarins.
Í úttekt sem Capacent gerði fyrir Hafnarfjörð segir að núverandi húsnæði ráðhússins við Strandgötu henti ekki lengur og skipulag þess geti hindrað skilvirka vinnu og þverfaglegt samstarf. Þá hafi ólík vinnubrögð og menning á milli starfsemi á Strandgötu og Norðurhellu leitt til erfiðleika í samstarfi á stórum verkefnum. Það geti gert það að verkum að starfsfólk líti ekki á vinnustaðinn sem eina heild.
Starfshópnum er ætlað að skoða möguleika sem standa Hafnarfjarðarkaupstað til boða. Meðal annars óbreytta staðsetningu, byggingu nýs ráðhúss, endurbyggingu annars húsnæðis í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar fyrir ráðhús, viðbygging við ráðhúsið Strandgötu 6, eða aðra kosti kjósi hann svo. Bæði kemur til greina að húsnæðið verði í eigu bæjarins eða leiguhúsnæði. Heimilt er samkvæmt erindisbréfinu a kalla til utanaðkomandi ráðgjafa.
Þau Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Sigríður Kristinsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs, og Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsþjónustu vinna með hópnum. Ágúst Bjarni Garðarsson var kjörinn formaður hópsins á fundi bæjarráðs. Aðrir í hópnum verða Kristin Andersen, Lovísa Traustadóttir, Adda María Jóhannssdóttir og Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttir.