Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ólga í Dalabyggð vegna mögulegrar sölu Lauga

Laugar í Dölum, Sæljngsdalur
 Mynd: lonelyplanet.com - Lonely Planet
Fyrsti varamaður í sveitarstjórn Dalabyggðar hvetur stjórnina, í opnu bréfi í Skessuhorni í dag, til að taka ekki til umræðu erindi fyrirtækisins Arnarlóns um kaup á Laugum. Eina tilboðið í húseignir að Laugum, í helmingshlut sveitarfélagsins í jörð þar og jarðhitaréttindi, kom frá Arnarlóni.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða 17. apríl síðastliðinn að slíta viðræðum við Arnarlón þar sem það féllst ekki á fyrirvara sem voru settir af hálfu sveitarfélagsins. 

Upphaflega hljóðaði tilboðið upp á 460 milljóna greiðslu fyrir eignirnar og að sveitarfélagið myndi lána fyrirtækinu fyrir hluta hennar. Land Sælingsdalstungu var með í þeim hugmyndum.  

Vill að ný sveitarstjórn fjalli um málið

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, fyrsti varamaður í sveitarstjórn Dalabyggðar, segir í opna bréfinu að það komi mjög á óvart að sveitarstjórn ætli að taka málið til afgreiðslu á morgun, tveimur dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar. „Ég hvet sveitarstjórn til að fresta afgreiðslu þessa máls og eftirláta nýrri sveitarstjórn að taka við boltanum enda verður kosin ný sveitarstjórn 26. maí nk., tveimur dögum eftir 161. fund fráfarandi sveitarstjórnar,“ segir hann í opna bréfinu. Í samtali við fréttastofu kveðst hann fyrst og fremst mótfallinn sölunni þar sem hann telji að það eigi ekki að vera í verkahring sveitarfélags að lána fyrirtækjum pening. „Það er verið að tala um núna að selja eignir fyrir 405 milljónir og að lána nærri helming til kaupandans. Ég tel það bara ekki vera í verkahring sveitarfélags að lána pening.“ Hann kveðst hafa orðið var við talsvert mikla óánægju meðal íbúa í Dalabyggð og þá sérstaklega vegna þeirrar hugmyndar að lána þessa fjármuni. Fólk hafi haft samband við hann eftir birtingu bréfsins. 

Á ekki von á að gengið verði frá sölunni fyrir kosningar

Jóhannes Haukur Hauksson, oddviti Dalabyggðar, kveðst ekki eiga von á því að gengið verði frá sölunni á sveitarstjórnarfundinum á morgun. 13. maí síðastliðinn hafi sveitarstjórn borist tillaga að lausn frá Arnarlóni og að hún verði tekin fyrir eins og hvert annað erindi til stjórnarinnar. Ef málið verði ekki klárað, eins og hann telji líklegt, þá bíði það nýrrar sveitarstjórnar að ljúka afgreiðslu þess.

Samkvæmt eldra tilboði Arnarlóns átti annað skuldabréf Dalabyggðar að vera á þriðja veðrétti. Sveitarstjórnin setti aftur á móti þau skilyrði að þau yrðu á fyrsta og öðrum veðrétti og var viðræðum um söluna slitið vegna þessa. 

Ný tillaga og Sælingsdalstunga undanskilin

Tillagan sem rædd verður á morgun felur í sér að jörðin Sælingsdalstunga verði undanskilin og að kaupverðið lækki sem henni nemur og verði 405 milljónir króna. Hins vegar fái Arnarlón kauprétt á þeim hluta Sælingsdalstungu sem ætlar er fyrir frístundahúsabyggð og golfvöll. Samkvæmt nýju tillögunni verða lánin frá Dalabyggð á öðrum veðrétti. 

Að Laugum er gamall grunnskóli sem UMFÍ hefur nýtt undir ungmennabúðir yfir vetrartímann. Þar hefur verið hótel á sumrin. Eyjólfur segir að almennt sé ekki óánægja með að selja eigi eignirnar, heldur aðeins vegna hugmynda um að sveitarfélagið láni fyrirtækinu. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir