Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Öldruðum gert að reiða fram milljónir

13.04.2014 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar í öldrunarmiðstöðinni Höfn í Hafnarfirði þurfa að reiða fram á bilinu eina og hálfa til fjórar milljónir króna á næstu vikum til fá að búa áfram í húsunum. Stjórnarmaður í Hafnarhúsunum segir kaup íbúanna á íbúarétti ekki ganga lengur.

Íbúunum Hafnarhúsanna og aðstandendum þeirra var tilkynnt um málið á fundi í gær.

Þar kom fram að hver og einn íbúi þurfi að leysa til sín íbúðirnar með því að taka yfir eignaréttinn á þeim og sameigninni, þar sem byggingasjóður Hafnar, sem rekur Hafnarhúsin, hafi verið rekinn með tuttugu milljóna króna tapi í fyrra.

Þetta þýðir að íbúar hafa rúman mánuð til að reiða fram á bilinu eina komma sex til fjórar milljónir króna, eftir því hversu stórar íbúðirnar eru. Annars gæti Íslandsbanki, sem er kröfuhafi, leyst húsin til sín. Íbúðirnar eru ekki veðsettar í dag.

Hingað til hafa íbúar borgað íbúarétt í húsunum, sem standa við Sólvangsveg í Hafnarfirði. Formið hefur verið við lýði í rúm tuttugu og fimm ár. 

Gylfi Ingvarsson, stjórnarmaður öldrunarmiðstöðvarinnar Hafnar, segir hið gamla rekstrarform einfaldlega ekki ganga lengur. Með þessu sé verið að finna leiðir til að tryggja húsnæðisöryggi íbúanna áfram með því að breyta forminu úr íbúðarréttarákvæði í eignarréttarákvæði. 

„Það er fyrst og fremst verið að reyna að bregðast við með því að íbúarnir eignist íbúðirnar og þar af leiðandi verður ekki hægt að ganga að þeim," segir hann. „Það má alveg segja að það sé brugðist við á réttum tíma til að stefna ekki í stöðu sem ekki væri ráðið við."

[email protected]