Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ólafur segist hafa misskilið spurninguna á CNN

07.05.2016 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag að hann hefði misskilið spurningu fréttamanns CNN um það hvort upplýsingar ættu eftir að koma fram sem tengdu hann, eiginkonu eða fjölskyldu hennar við aflandsfélög. Ólafur telur að fréttaflutningur hafi ekki skaðað orðspor hans og segir málið engin áhrif hafa fyrirætlanir um framboð.

„Þegar ég er spurður um mína fjölskyldu þá skil ég spurninguna; fjölskylda mín á Íslandi og Dorrit. Þannig að ég var engan hátt að svara fyrir foreldra Dorritar eða aðra ættmenn hennar,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Það hefur síðan komið í ljós eftir að þessi mál voru skoðuð, frá því í byrjun vikunnar, að Dorrit hefur aldrei átt reikninga í þessum svissneska banka. Þó að foreldrar hennar hafi gert það enda hafa foreldrar hennar stundað viðskipti og verslunarrekstur í Sviss í áratugi. Þannig að hún hefur aldrei tengst þessum svissneska banka, gagnstætt því sem menn hafa verið að fullyrða í þessum miðlum hér.“

Ólafur Ragnar sagði Dorrit ekki hafa neina tengingu við fyrirtækið Jaywick sem nefnt hefði verið í fjölmiðlum; „…þá hefur hún aldrei komið nálægt því, vissi ekkert um það, aldrei átt neinn hlut af því af neinu tagi. Heldur var var það alfarið málefni foreldra hennar.“

Ólafur Ragnar var spurður hvers vegna nafn Dorritar kæmi þá fram í Panamaskjölunum. „Vegna þess að hluti þess sem þarna kemur fram snertir ráðstafanir sem foreldrar hennar hafa gert út af erfðamálum fyrir allmörgum árum síðan um það hvað muni gerast þegar þau eru bæði látin.“

Ólafur Ragnar var einnig spurður hvort til greina kæmi að hann og Dorrit myndu opna bókhald sitt líkt og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefði gert að hluta og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.

„Mér finnst það alveg geta komið til greina. Það er ákvörðun sem við bara tökum á sínum tíma og við höfum ekki myndað neina afstöðu í því.“ Aðspurður hvort hann myndi ræða þann möguleika við Dorrit svaraði Ólafur Ragnar; „Já sjálfsögðu mun ég gera það. En ég mun hins vegar sýna því fulla virðingu að það er hennar sjálfstæða ákvörðun.“

Ólafur Ragnar sagði að málið og fréttaflutningur um það breytti engu um fyrirætlanir hans um að bjóða sig fram til forseta á ný. „Nei það kemur ekki til greina að draga framboðið til baka út af þessar umræðu, það er engin ástæða til þess. Vegna þess að ég tel að efnisatriði málsins séu alveg skýr.“