Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólafur Ragnar og Sigmundur ræddu Rússabann

13.08.2015 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Malín Brand
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, áttu fund í dag vegna stöðunnar sem upp er komin í samskiptum Íslands og Rússlands, samkvæmt heimildum fréttastofu. Viðskiptabannið eru vond tíðindi, segir Bjarni Bendiktsson, fjármálaráðherra.

Viðskiptabann Rússa gagnvart Íslandi er án fordæma og litið alvarlegum augum. 

Forystumenn í sjávarútvegi hafa lýst yfir stórfelldum áhyggjum - tjón vegna viðskiptabannsins nemi milljörðum og störf 1.000 manna kynnu að vera í hættu. Fundur verður í utanríkismálanefnd á morgun og stjórnarandstaðan hvetur til skjótra viðbragða ríkisstjórnarinnar. 

Ekki hefur náðst í Sigmund Davíð Gunnlaugsson,forsætisráðherra.  Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðuna alvarlega. „Þetta eru afar slæm tíðindi,“ segir Bjarni. „Við höfum flutt út mjög verðmætar sjávarafurðir inná Rússlandsmarkað. Tiltölulega hátt hlutfall af heildarútflutningi okkar er matvæli til Rússlands eða 5 prósent af vöruútflutningi Íslands. Þannig að hér er verið að tefla með gríðarlega útflutningshagsmuni okkar.“

Bjarni segir að nú verði að fara yfir stöðuna og meta hvernig hægt sé að verja efnahagslega hagsmuni Íslands sem best. - Við fyrstu skoðun blasi það við að ekkert ríki verði jafn illa úti og Ísland, hlutfallslega,  í þessum refsiaðgerðum. „Við höfum skyldu til að fara mjög vandlega yfir þessa stöðu og alla þá kosti sem við höfum í þessu máli út frá þessum gríðarlega miklu efnahagslegu hagsmunum sem eru undir,“ segir Bjarni.

Fram kom í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu síðdegis að íslenskar vörur yrðu ekki tollafgreiddar og þeim hugsanlega fargað við landamæri Íslands. Þær vörur sem viðskiptabannið nær ekki til eru lambakjöt, ærkjöt, hrossakjöt og niðursoðið fiskmeti í dósum.

Fréttavefurinn Undercurrent news sagði frá því að þremur sendingum frá Íslandi til Rússlands hefði verið snúið við. - Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verða þær vörur geymdar í öðrum höfnum þar til málið skýrist. Fréttastofa hefur jafnframt upplýsingar um að skip Samherja hafi komið til hafnar í Rússlandi í morgun - það skýrist ekki fyrr en í nótt hvað verður um farminn.