Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ólafur Ragnar eykur fylgi sitt

25.05.2012 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson mælist með 9 prósentustiga meira fylgi í framboði til forseta Íslands en Þóra Arnórsdóttir í nýrri Gallupkönnun. Þetta er mikill viðsnúningur frá síðustu Gallupkönnun þegar Þóra mældist með örugga forystu.

Ólafur Ragnar Grímsson mælist nú með rúmlega 45% fylgi meðan tæplega 37% hyggjast kjósa Þóru Arnórsdóttur. Fylgi Ara Trausta Guðmundssonar mælist um 9%. Fylgi annarra frambjóðenda mælist mun minna.  

Capacent Gallup gerði kannaði fylgi forsetaframbjóðenda átjánda til 25. maí. 1350 voru spurðir um hvert þeirra sem lýst hafa yfir framboði til embættis forseta Íslands viðkomandi myndi kjósa, ef kosið yrði í dag. Svarhlutfall var tæplega 59%.

Rúmlega 45% segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson á meðan Þóra Arnórsdóttir mælist með tæplega 37% fylgi. Rúmlega 9% segjast myndu kjósa Ara Trausta Guðmundsson. Herdís Þorgeirsóttir mælist með rúmlega 4% fylgi, Andrea Jóhanna Ólafsdóttir með tæplega 3%t, Ástþór Magnússon með tæp 2% og Hannes Bjarnason með 0,3% fylgi. Ólafur Ragnar mælist því með tæplega 9 prósentustiga meira fylgi nú en Þóra. Þetta er alger viðsnúningur frá síðustu könnun Galluð sem birt var í byrjun maí. Þá sögðust rúmlega 46% ætla að kjósa Þóru en fylgi Ólafs Ragnars mældist rúm 37%.

Litlar breytingar hafa orðið á fylgi annarra frambjóðenda að öðru leyti en því, að Jón Lárusson er hættur við, og Andrea komin í framboð. Tvær aðrar kannanir voru birtar í dag.

Í könnun Fréttablaðsins mælist Ólafur eins og í könnun Gallup með talsvert forskot á Þóru. Samkvæmt þeirri könnun myndu tæplega 54% kjósenda greiða honum atkvæði nú meðan Þóra mælist með rúmlega 35% fylgi. Fylgi annarra kjósenda mælist í þeirri könnun um og undir 5%.

 MMR sendi síðan út könnun síðdegis - þar mælast Ólafur og Þóra hinsvegar hnífjöfn - með rúmlega 41% fylgi hvort en Ari Trausti mælist þar með tæplega 10% fylgi.