Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ólafur Ragnar býður sig fram aftur

18.04.2016 - 13:42
Mynd: RÚV / RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum sem haldnar verða 25. júní. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi á Bessastöðum sem boðað var til í dag. Ólafur sagði að hann myndi taka ósigri í kosningunum vel ef þjóðin kysi einhvern annan. „Þá myndi ég ganga glaður til móts við frelsið,“ sagði Ólafur í yfirlýsingu sinni.

Þessi frétt verður uppfærð
Ólafur Ragnar nefndi það í yfirlýsingu sinni að undanfarin ár hefðu verið tími umróts, nýrra kosninga og svo fjöldaaðgerða sem hefðu lagt grunninn að tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum í Icesave-málununum.

Ólafur sagði ennfremur að þótt þjóðinni hefði miðað vel eftir bankahrunið þá hefðu öldur mótmæla og viðbrögð við þeim sýnt að ástandið væri enn viðkvæmt. 

Ólafur sagði að fjöldi fólks hefði beðið hann um endurskoða ákvörðun sína um að bjóða sig ekki fram aftur. Þeir hefðu þá iðullega vísað til þeirra atburða sem gerðust nýverið í tengslum við afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.  Ekki væri hægt að horfa framhjá því að sambúð þings og þjóðar væri þrungin spennu.

Ólafur gaf kost á nokkrum spurningum eftir að hafa lesið upp yfirlýsingu sína.  Hann sagði að atburðir síðustu vikna hefðu haft afgerandi áhrif á ákvörðun hans. „Einhvers staðar verður að vera reynsla og það verður að vera kjölfesta,“ sagði Ólafur.

Hann sagðist ekki vera kominn svo langt að hugsa um kosningabaráttuna og sagði að sá fjöldi, sem nú þegar hefur lýst yfir framboði, hafi ekki haft nein áhrif.

Ólafur var spurður nokkuð ítarlega út í samtal sitt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem þeir áttu að morgni þriðjudags fyrir hálfum mánuði. Ólafur sagði það af og frá að hann hefði viðrað þar hugmyndir um utanþingsstjórn og enn síður að hann hefði rætt við Má Guðmundsson, seðlabankastjóra, um að gerast fjármálaráðherra í slíkri ríkisstjórn. „Ef ég hefði rætt við Má hefði ég sennilega viljað að hann yrði forsætisráðherra.“