Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólafur með mest fylgi en margir óákveðnir

28.04.2016 - 21:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson nýtur langmests stuðnings í embætti forseta samkvæmt nýrri könnun. Fjórðungur landsmanna hefur þó ekki gert upp hug sinn eða hyggst skila auðu.

Fyrirtækið Zenter kannaði afstöðu kjósenda til forsetaframbjóðenda dagana 20-28. apríl. Spurt var: Hvaða frambjóðanda svarendur myndu líklegast kjósa en 812 svör bárust. 

Sitjandi forseti með lang mest fylgi

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mest fylgis en 41% nefndu hann. 18,3% nefndu Andra Snæ Magnason og 6,2% nefndu Höllu Tómasdóttur. Hrannar Pétursson og Bæring Ólafsson, sem báðir eru hættir við framboð, komu næstir með 1,5% og 1,1%. 1% svarenda nefndi Ástþór Magnússon, 0,6% Sturlu Jónsson og jafn margir Magnús Inga Magnússon. 0,4% nefndu Guðrúnu Margréti Pálsdóttur og jafn margir Hildi Þórðardóttur en 0,1% nefndi Ara Jósepsson. Enginn nefndi Elísabetu Jökulsdóttur og Benedikt Mewes.

15,3% hafa ekki gert upp hug sinn og 9,9% sögðust myndu skila auðu. Tæp 2% hafa ekki áhuga á að kjósa og annað eins vildi ekki svara. Samtals taka því nærri 30% ekki afstöðu til frambjóðendanna.

Nærri 6 af hverjum 10, sem taka afstöðu, styðja Ólaf Ragnar

Ef einungis er litið til þeirra sem taka afstöðu til frambjóðenda telja 57,6% líklegast að þau kjósi Ólaf Ragnar, 25,8% Andra Snæ og 8,7% Höllu Tómasdóttur. 2,1% nefndu Hrannar Pétursson, 1,5% Bæring Ólafsson, 1,4% Ástþór Magnússon, 0,9% Sturlu Jónsson, 0,8% Magnús Inga Magnússon, 0,6% Guðrúnu Margréti Pálsdóttur, 0,5% Hildi Þórðardóttur og 0,2% Ara Jósepsson.