Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólafur Elíasson tekur yfir veitingastað Tate

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ólafur Elíasson tekur yfir veitingastað Tate

19.08.2019 - 11:59

Höfundar

Yfirlitssýning á verkum Ólafs Elíassonar myndlistarmanns stendur nú yfir á Tate Modern listasafninu í Lundúnum. Og ekki nóg með það heldur er veitingastaðurinn á safninu hluti af sýningunni.

Þegar Tate Modern hafði samband við Ólaf Elíasson um yfirlitssýningu verka hans á safninu stakk hann upp á að veitingastaður safnsins yrði hluti af sýningunni. Forsvarsmenn safnsins brugðust vel við þessari áhugaverðu uppástungu og nú um stundir er hægt að snæða fjögurra rétta máltíð eftir höfði Ólafs og Jons Atashroo, yfirkokks Tate Modern. 

Í viðtali við The Guardian kemur fram að tilgangurinn með veitingastaðnum sé ekki bara að bjóða upp á gómsæta og listilega samsetta grænmetisrétti. Líkt og verk Ólafs hafa gert í gegnum tíðina á staðurinn að varpa ljósi á umhverfismál og vera eins sjálfbær og unnt er. Í viðtalinu segir Ólafur að matvælaiðnaður sé ábyrgur fyrir einum þriðja hluta kolefnislosunar í heiminum og því hafi þau viljað helminga kolefnisspor veitingastaðarins í Tate. 

Ólafur hefur rekið eldhús á vinnustofu sinni í Berlín frá 2005 þar sem bornir eru á borð lífrænir grænmetisréttir fyrir starfsmannahóp hans, um 80 manns. Ólafur rak tímabundið veitingastað með systur sinni, Victoriu Elíasdóttur kokki, í Marshall-húsinu á Granda frá 11. ágúst til 28. október 2018.

Yfirlitssýning Ólafs Elíassonar, sem ber heitið In Real Life, var opnuð í Tate Modern listasafninu 11. júlí og stendur til 5. janúar 2020.

Tengdar fréttir

Myndlist

Ólafur Elíasson gefur flóttamönnum Grænt ljós

Myndlist

Ólafur Elíasson einn af 10 áhrifamestu

Menningarefni

Ólafur Elíasson hlaut Crystal verðlaunin