Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ökumaður grunaður um ölvun stakk af eftir umferðaróhapp

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglu barst tilkynning um umferðaróhapp í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld. Ökumaðurinn, sem stakk af eftir óhappið, var handtekinn skömmu síðar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og akstur mót einstefnu. Þá fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru fjórir aðrir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna eftir nóttina. Í ljós kom að einn þeirra hafði ítrekað verið sviptur ökuréttindum og var sá vistaður í fangageymslu lögreglu. Annar neitaði að gefa lögreglu upp persónuupplýsingar sínar og hafði í hótunum við lögreglu. Sá var einnig vistaður í fangageymslu, þá vegna rannsóknar málsins.

Það sem af er ári hafa verið skráð tæplega fjörutíu prósent fleiri brot, vegna aksturs undir áhrifum ávana og fíkniefna, en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan. Brotum vegna aksturs undir áhrifum áfengis hefur þá fjölgað um sextán prósent á tímabilinu. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir októbermánuð. 

 

Um áramótin taka ný umferðarlög gildi. Þá lækkar leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði ökumanns úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Í greinargerð með lögunum segir að ölvunarakstur sé önnur algengasta orsök banaslysa í umferðinni hér á landi á eftir hraðakstri.

Þá sé ökumaður, með 0,5 prómill af áfengi í blóði, 150 sinnum líklegri til að láta lífið í umferðarslysi en ef hann væri allsgáður, og 30 sinnum líklegri til að verða fyrir alvarlegu líkamstjóni.

Fréttin hefur verið uppfærð.