Óku á raflínu sem féll á veg

14.02.2020 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram - RÚV
Lögreglunni á Suðurlandi barst upp úr klukkan átta tilkynning um að ekið hefði verið á raflínu sem féll á veg í nágrenni við bæinn Akur á Hvolsvelli. Engin slys urðu á fólki.

Tveir rafmagnsstaurar brotnuðu í hvassviðrinu sem ríður nú yfir með þeim afleiðingum að rafmagnslínan sem þeir héldu uppi féll á veg við bæinn Akur norðan við Hvolsvöll. Mikill viðbúnaður var vegna málsins en lögregla, slökkvilið og sjúkrabíll fóru á vettvang auk starfsmanna RARIK.

„Það blossar heilmikið þegar bíllinn lendir á línunni. Hún fer í sundur og slær út við það,“ segir Atli Árdal Ólafsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Hann segir ökumanni og farþega bílsins blessunarlega hafa sloppið ómeidd en að þeim hafi verið mjög brugðið. 

„Fólkið sat grafkyrrt í bílnum og gerði alveg rétt. Þau hreyfðu sig ekki, opnuðu ekki út eða neitt slíkt,“ segir Atli.

Starfsmenn RARIK hafi svo tryggt línuna og fjarlægt hana af veginum. Atvikið gæti haft áhrif á rafmagn bæja á svæðinu.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi