Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ókeypis hús á Raufarhöfn

28.01.2012 - 20:26
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarfélagið Norðurþing hefur auglýst nokkur hús á Raufarhöfn til sölu. Búið er að samþykkja kauptilboð í eitt þeirra, en kaupverðið er núll krónur.

Húsið sem sveitarfélagið ætlar að láta frá sér án endurgjalds er Gamla kaupfélagshúsið á Raufarhöfn en þau skilyrði eru sett nýjum eigendum að þeir geri húsið upp að utan, innan þriggja ára í samráði við byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Að sögn Bergs Elíasar Ágústssonar, sveitarstjóra Norðurþings, er um að ræða sögufrægt hús á fallegum stað.

„Okkar gróði felst í því að húsið verði gert upp af ákveðnum myndarskap og bætir bæjarbraginn og það er hellingsávinningur í því fyrir þá sem þar búa og sveitarfélagið.“

Gamla Kaupfélagshúsið verður ekki eina húsið á Raufarhöfn sem gengur í endurnýjun lífdaga því eins og RÚV hefur áður greint frá þá hefur hópur listafólks tekið að sér Óskarsstöðina, eina frægustu síldarverbúð landsins, og er að gera hana upp.

Fleiri hús eru til sölu á Raufarhöfn í eigu sveitarfélagsins en hvort þau verða seld á eins góðu verði og Gamla Kaupfélagshúsið getur Bergur ekki sagt til um. „Það er nú ekki hægt að alhæfa um það en þetta bara snýst um samninga. Í þessu tilfelli er um gamalt hús að ræða en það er bara þannig að við munum skoða hvert dæmi fyrir sig. Hvað er hægt að gera og hvað menn vilja gera við þær eignir sem menn hafa áhuga á.“