Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ókei, ég held að heimurinn sé að farast“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir

„Ókei, ég held að heimurinn sé að farast“

16.10.2019 - 14:02

Höfundar

„Ég dáist af fólki sem er jákvætt og bjartsýnt en þegar kemur að loftslagsbreytingum er ég bara eins og fúlu karlarnir á svölunum í prúðuleikurunum. Þetta er bara hræðilegt og ég er ekkert hrædd við að segja öllum sem ég þekki frá því,“ þetta segir Tinna Eiríksdóttir, framhaldsskólakennari og umhverfis- og auðlindafræðingur.

Í öðrum þætti Loftslagsþerapíunnar er rætt við þrjár konur sem voru saman í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Þær og fleiri úr hópnum sem útskrifaðist árið 2014 hafa haldið sambandi; hist reglulega, borðað saman og rætt ýmis mál, loftslagsmálin þar á meðal. Allar eiga þær sameiginlegt að hafa fundið fyrir kvíða og depurð í tengslum við loftslagsvána.  

Notalegur félagsskapur

„Mér finnst þetta rosalega notalegur félagsskapur af því að ég held það sé ekki margt fólk í mínum nánasta hring sem er endilega að ræða loftslagsvána. Þó svo þetta tengist vinnunni minni gríðarlega náið, ræði ég ekki loftslagsmál við mjög marga,“ segir Anna Margrét Kornelíusdóttir sem starfar hjá Íslenskri nýorku. 

„Stundum þurfa allir að fá sér ís“

„Mér þykir mjög vænt um þennan hóp. Ég þarf rosa mikið að tala um þetta og mér finnst rosa gaman að hitta fólk sem er að gera ólíka hluti og er með ólík viðhorf. Að hitta fólk, á jafningjagrundvelli,  geta talað um hluti og geta sagt, þegar þú ert úti að borða með vinum þínum: Ókei, ég held að heimurinn sé að farast, og svo bara tölum við um það í smá stund og þurfum svo annað hvort að faðmast eða fá okkur ís því það eru allir orðnir svo deprímeraðir en þetta er rosa gott, þetta er rosa uppbyggilegt,“ segir Tinna.  

„Mér finnst líka gott að vita af Önnu Margréti að gera sitt og Tinnu í skólanum að kenna börnum um umhverfismál, þá veit maður að það er fullt af fólki sem maður hittir ekki á hverjum degi en er samt þarna og er að gera þessa hluti, “ segir Nína M. Saviolidi, doktorsnemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. 

Það finna margir fyrir kvíða, reiði, sorg eða vanmætti gagnvart loftslagsvandanum. Það er skiljanlegt en það er verra ef tilveran verður samfellt kvíðakast.

Í öðrum þætti Loftslagsþerapíunnar er hlegið og grátið. Fjallað er um hvernig loftslagsvandinn tengist líðan okkar og geðheilsu og hvernig hægt er að lifa með honum.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt

Menningarefni

Sport að fá að sitja í hjá „þröskuldi“