Ójöfnuður á Íslandi minnkar

13.08.2019 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tekjujöfnuður hefur aukist hér á landi frá í fyrra, miðað við úrvinnslu Viðskiptaráðs Íslands úr gögnum Hagstofunnar. Tekjur lægri tekjuhópa hafa hækkað um átta prósent á meðan tekjur þeirra sem skipa tekjuhæstu tíundina hafa hækkað um fimm prósent. Tekjuhæsta prósentan lækkaði örlítið í tekjum. Til viðbótar við aukinn tekjujöfnuð hefur hlutfall tekjuhærri lækkað og tekjulægri hækkað.

Viðskiptaráð tekur tölur Hagstofu saman. Þrátt fyrir að vanti gögn um ráðstöfunartekjur segir Viðskiptaráð að búast má við því að þau gæfu einnig aukinn jöfnuð í ljós.

Skattbyrði næsthæst í OECD og fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar dvínar

Skattar á einstaklinga á Íslandi er næsthæstir innan OECD ríkjanna með um 26 prósent skattbyrði á einstaklinga af vergri landsframleiðslu. Einungis Danmörk situr þar hærra en Ísland með tæp 25 prósent. Þó teljast framlög til almannatrygginga til tekjuskatts í Danmörku sem hækkar hann. Stöðu Íslands má rekja til þess að skattbyrði á landinu hefur aukist síðastliðin ár og hefur aldrei verið hærri. Á meðan hefur skattbyrði staðið í stað eða lækkað á hinum Norðurlöndunum.

Fjárhagslegur ávinningur menntunar, sér í lagi háskólamenntunar, hefur farið minnkandi síðan 2010 og heldur áfram að minnka.  Þó hafa tekjur iðnmenntaðra og annarra sem hafa klárað starfsnám á framhaldsskóla- eða viðbótarstigi hækkað um 15 prósent meira en hjá öðrum á árunum 2016-2018.

18 ár í tekjujöfnuð kynjanna og kaupmáttur ungs fólk vinnur á

Tekjumunur kynjanna hefur minnkað síðustu ár, að 2018 meðtöldu. Sé horft framhjá mismunandi atvinnuþátttöku og vinnutíma kynjanna eru konur með 68 prósent af atvinnutekjum karla og 81 prósent af ráðstöfunartekjum. Haldist sami hraði á þessari þróun og síðustu 28 ár má ætla að tekjujöfnuði ráðstöfunartekna verði náð eftir 18 ár.

Yngri aldurshópar vinna á í kaupmáttaraukningu eftir að hafa setið eftir síðustu áratugi. Kaupmáttur 16-34 ára jókst um tæp tvö prósentustig á meðan aukning var minni eða dróst saman hjá öðrum aldurshópum.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi