Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óhrædd við að glefsa

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Óhrædd við að glefsa

07.05.2019 - 11:09

Höfundar

Vigdís Hafliðadóttir eða Dísa Hafliða fréttamaður Iceland Music News, sem er stödd í Tel Aviv að flytja fréttir af Eurovision, segir að stundum skorti heiðarleika í íslenskt samfélag. Hlutverk fréttamiðils hennar er að standa vörð um hagsmuni almennings og vera varðhundar. 

Vigdís er í tveggja manna teymi miðilsins ásamt Guðmundi Einari í Ísrael að fjalla um keppnina, keppendur og framandi slóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Eitt af gildum miðilsins er heiðarleiki. „Í okkar samfélagi er stundum eins og heiðarleikann skorti. Við erum fjölmiðill og tökum því hlutverki alvarlega. Fjölmiðlar eiga að standa vörð um hagsmuni almennings og vera varðhundar. Það er það sem við tökum að okkur. Við erum ekki hrædd við að glefsa ef þess þarf með heiðarleikann að vopni,“ útskýrir Vigdís. Guðmundur Einar bætir við að þau séu hrædd við að spyrja erfiðra spurninga, allt eftir því hvert umfjöllunarefnið er hverju sinni. 

„Tónlist og menning í gegnum tíðina hefur alltaf leitt flestar samfélagsbreytingar. Við sjáum þetta allt frá rokkinu, hvernig það breytti heiminum og í gegnum fjölmargar aðrar stefnur. Við vanmetum ekki samfélagslega dýpt tónlistarinnar,“ segir Guðmundur Einar.

Aðspurð hver tengsl Iceland Music News við heimsenda-fjöllistabandið Hatara séu svarar Vigdís: „Tengjumst við ekki öll eitthvað á Íslandi? Þetta er lítið land, auðvitað þekkir maður til fólks en við erum fyrst og fremst sjálfstætt starfandi fjölmiðill sem hefur það markmið að ná fram sannleikanum.“ Guðmundur Einar bætir við að INM sé nátengd senunni enda er það starf þeirra að fjalla um tónlist og menningu af dýpt. 

Hægt er að hlusta á viðtal við Guðmund Einar og Vigdísi í fullri lengd í spilaranum að ofan en það heyrðist fyrst í Morgunverkunum hjá Þórði Helga á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Hatari er alltaf Hatari þegar hann er hér“

Popptónlist

Eru líka ljúfir feður og fjölskyldumenn

Popptónlist

Segja aðskilnaðarstefnu ríkja í Ísrael

Popptónlist

Klökkur eftir blaðamannafund og magnaða æfingu